Spurt og svarað

12. febrúar 2007

Er kolsýrt vatn hollt eða óhollt?

Sælar!

Ég var að velta fyrir mér því ég las í fyrirspurn hérna um dagin varðandi hvort börn mættu drekka kolsýrt vatn og þá var þetta svarið frá ljósmóður og hjúkrunarfræðing:

„Kolsýran í sódavatninu er talin stuðla að glerungseyðingu tanna, sem er algeng meðal unglinga í dag. Glerungurinn þekur tennurnar, herðir þær og ver þær gegn tannskemmdum.“

Svo las ég á lydheilsustod.is  þetta um kolsýrt vatn:

„Ein aðalorsök glerungseyðingar er mikil og tíð neysla gosdrykkja - með eða án sykurs - en neysla slíkra drykkja er mjög mikil hér á landi. Vatn, ferskt og kolsýrt, veldur ekki glerungseyðingu.“

Langaði bara að benda á þetta því ég rakst á þetta.

Kveðja, Tannsla.


Komdu sæl, Tannsla

Tók einnig eftir þessu og það er rétt, að þetta eru misvísandi skilaboð.
Staðreyndin er sú, að kolsýrt vatn stuðlar að einhverri glerungseyðingu en í mun minna mæli en kolsýrðir gosdrykkir, því þeir innihalda einnig rotvarnarefni, sem sýra drykkina enn frekar, auk kolsýrunnar.

Lýðheilsustöð bendir á að hollara sé að drekka vatn og kolsýrt vatn fremur en gosdrykki m.t.t. glerungseyðingar tanna. Hins vegar má líka benda á, að það er ekki skynsamlegt að drekka magnið, sem drekka skal á löngum tíma, heldur klára það á stuttum tíma, svo að sýrustigið í munninum nái fljótt sínu fyrra jafnvægi aftur. Í hvert sinn, sem við setjum eitthvað matarkyns upp í okkur eða drekkum, breytist sýrustigið í munninum, sem getur haft neikvæð áhrif á glerunginn.

Takk fyrir ábendinguna,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.