Spurt og svarað

16. janúar 2006

Er nauðsynlegt að gefa börnum aðra fæðu 6 mánaða?

Komdu sæl!

Ég á rúmlega 6 mánaða gamalt barn sem er eingöngu á brjósti. Brjóstagjöfin hefur gengið eins og í sögu, án nokkurra vandkvæða og barnið braggast vel og sefur vel. Mig langaði til að athuga hvort það væri nauðsynlegt að börn byrjuðu að borða aðra fæðu 6 mánaða. Mér finnst allir bæklingar um þetta efni og samfélagið segja mér að ég eigi að fara að gefa barninu mat, annan en brjóstamjólk.

Bestu kveðjur, Gulla.

Sæl og blessuð Gulla!

Það er gott að heyra hvað brjóstagjöfin hefur gengið vel hjá þér. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með eingöngu brjóstagjöf í sex mánuði og brjóstagjöf með annarri fæðu í tvö ár eða lengur. Rökin fyrir því að byrja á því að kynna aðra fæðu fyrir barninu eftir fyrsta hálfa árið, eru að þá eru meðfæddar járnbirgðir á þrotum. Það þýðir að nauðsynlegt er að fá járn til viðbótar úr fæðu með því að borða graut eða grænmeti. Það er kannski ekki bráðnauðsynlegt nákvæmlega þegar barnið nær sex mánaða aldri en fljótlega eftir það. Hægt er að byrja að kynna fasta fæðu í rólegheitum fyrir barninu á sjöunda mánuði. Það er nefnilega ekki vitað hversu hratt járnskortur getur þróast eftir að meðfæddu birgðirnar minnka. Þroski barnsins er orðinn það mikill að það er farið að geta setið til borðs með öðrum í matarstól og sýnir fæðu og því að matast áhuga. Meltingarfæri barnsins framleiða á þessum tímapunkti ensím sem brýtur niður fæðuna og meltingarfærin eru tilbúin fyrir næringu. Það er hinsvegar allt í lagi að fara rólega í þetta, gefa lítið smakk til að byrja með til barnið venjist nýju bragði og gefa alltaf brjóstið fyrst til að byrja með.

Vona að þér gangi vel með þetta!

Ingibjörg Baldursdóttir,hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júlí 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.