Er stelpan mín að fá nóg

10.02.2006

Komið þið sæl og takk fyrir góðan vef.

Ég á eina 31/2 mánaða stelpu sem er eingöngu á þurrmjólk og búin að vera það síðan 4 vikna. Það hefur alltaf gengið vel og ungbarnaeftirlitið mjög ánægt með hana. En núna seinustu 2 vikur hefur hún verið að þurfa meira. Hún fær pela og klárar hann og svo vill hún fá strax annan.  Hún virðist alltaf vera svöng og vil ég nú ekki svelta barnið mitt. Þar sem að þetta er mitt fyrsta barn og ég frekar ung þá veit ég ekki alveg hvað er í gangi...gæti svo sem verið vaxtakippur en mætti ég ekki til dæmis byrja að gefa henni pínu graut?  Eða á maður að bíða með það eins lengi og maður getur ?
Kveðja Unga mamman.

..............................................

Sæl og blessuð!

Dóttir þín er örugglega að taka vaxtarkipp og þarf því meira þessa dagana.  Það er nú fullsnemmt að fara að gefa henni graut, en þér er alveg óhætt að gefa henni meira af pelamjólkinni á meðan hún er að komast yfir þennan vaxtarsprett. Ólíkt bjóstabörnum sem mega drekka eins og þeim lystir af brjóstamjólkinni, þá á almennt að halda sér við ákveðna skammta af þurrmjólkinni, þú virðist nú alveg vita þetta, en á meðan hún er að taka þennan kipp þá skaltu bæta aðeins á hana, ekkert barn á að gráta af hungri.
Þér að segja er ég nú ekki mikill sérfræðingur í næringu pelabarna og því vil ég benda þér á að ræða þetta við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni ef hún heldur áfram að vera svona ósátt þrátt fyrir pelaábótina.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel!

Halla Björg Lárusdóttir, l
jósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10.02.2006.