Eyrnabólga hjá brjóstabarni

01.10.2006

Sælar!

Dóttir mín sem er 4 mánaða var að fá sýklalyf vegna eyrnabólgu. Nú er ég bara með hana á brjósti og það gengur mjög vel. Ég var mjög miður mín þegar læknirinn greindi eyrnabólguna og skrifaði upp á lyf handa henni. Mig langar að vita hvort að þetta sé algengt. Ég veit að það er kannski fáránlegt en ég hef áhyggjur af því að mjólkin mín sé ekki „góð“ þar sem ég hef alltaf heyrt að börn sem eru bara á brjósti verða ekki veik? Getur verið eitthvað að mjólkinni hjá mér? Ætti ég frekar að gefa henni eitthvað annað eða bæta einhverju við?

Með fyrirfram þökk, sorgmædd kusa.


Sæl og blessuð sorgmædda kusa.

Það er ansi djúpt í árinni tekið að segja að brjóstabörn verði ekki veik. Það er yfirleitt sagt að þau verði sjaldnar veik og veikindi þeirra verða mildari en barna á kúamjólk. Það er því engin ástæða fyrir þig að vera sorgmædd. Það er alveg eðlilegt að barn á þessum aldri fái eyrnabólgu eða kvef eða einhverja aðra umgangspest. Þú getur hins vegar verið alveg viss um það að veikindin verða aldrei eins mikil og ef barnið hefði ekki verið á brjósti. Það verður líka mun fljótara að ná sér. Þú skalt ekki einu sinni láta þér til hugar koma að mjólkin þín sé ekki nógu góð. Hún er það allra, allra besta sem þú getur gefið barninu þínu og ekkert annað efni kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana. Og það er einmitt út af þessu atriði. Hún hefur verndandi áhrif gegn sýkingum. Þá eiginleika hefur ekkert annað efni. Þú verður hins vegar alltaf að vera viðbúin því að barnið þitt geti veikst. Brjóstagjöfin kemur ekki í veg fyrir það. Hún dregur hins vegar mjög úr líkunum á því.

Hugsaðu þér ef barnið væri ekki á brjósti. Þá væri það kannski núna að fá sína fjórðu eyrnabólgu en ekki þá fyrstu.

Með góðum brjóstagjafakveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. október 2006.