Fæðingarþunglyndi í dvala?

06.04.2009

Ég held ég hafi þjáðst af vægu fæðingarþunglyndi þegar ég átti mitt fyrsta barn þrátt fyrir að það hafi í rauninni ekki bitnað á barninu eða sambandi mínu við það.  Ég gerði ekkert í þessu og eftir nokkra mánuði þegar barnið var komið til dagmömmu lagaðist þetta (hélt ég a.m.k.).  Lífið gekk sinn vanagang en nokkrum árum seinna varð ég aftur ólétt. Í kjölfarið versnaði samband mitt við eldra barnið stöðugt og ég fann að ég varð einhvern vegin áhugalaus og vildi helst ekki skipta mér mikið af því, vildi ekki hafa það í fanginu eða snerta það. Þetta ágerðist gegnum meðgönguna og batnaði ekki eftir að nýja barnið var fætt.  Ég gat ekki fengið nóg af nýja barninu og fannst ég vera að kafna úr ást til þess, ég fann ekki sömu tilfinningar gagnvart því eldra.  Ég veit að ég elska eldra barnið mitt en bara eins og úr fjarlægð.  Ég hugsa stöðugt um það þegar það er ekki með mér t.d. þegar ég sé eða heyri eitthvað sniðugt sem ég held að það hafi gaman af, ég þrái að gera ýmsa hluti með því og hugsa með mér að þetta ætti ég að sýna því eða segja því frá en um leið og ég er komin nálægt því er eins og slokkni einhvernvegin á mér.  Mér líður að vonum mjög illa yfir þessu og skil ekki hvað hefur gerst. Getur verið að þetta tengist á einhvern hátt fæðingarþunglyndi?  Sem hefur kannski vaknað úr dvala við meðgöngu nr. 2?  Eða er ég bara kona sem getur ekki elskað fleiri en eitt barn?


Komdu sæl.

Tilfinningar eru margslungnar og sambönd við börnin ekkert einföld.  Hvort þetta er fæðingarþunglyndi eða eitthvað annað skiptir kannski ekki höfuðmáli en ég held að þið þurfið einhverja hjálp.  Það er greinilegt að þér líður illa og hefur samviskubit gagnvart því hvernig þér líður.  Á mörgum heilsugæslustöðvum er nú þjónusta sálfræðinga eða teyma sem einmitt hjálpa barnafjölskyldum með svona mál.  Ég ráðlegg þér eindregið að tala um þetta við heimilislækninn þinn og fá leiðbeiningar hjá honum um framhaldið, hvað hægt er að gera til að hjálpa þér og barninu þínu.

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
6. apríl 2009.