Fæðingarþunglyndi?

12.01.2009

Sæl.

Mig langaði að spyrja þig álits um hvort að ég gæti verið með fæðingarþunglyndi eða hvort að þetta sé bara vitleysa í mér.  Málið er að ég átti mjög erfiða meðgöngu, kærastinn minn hætti með mér rétt áður en ég komst að því að ég var ólétt (vorum búin að vera lengi saman) og hann kom mjög illa fram við mig á meðgöngunni en hann varð allt annar eftir að barnið okkar kom í heiminn.  Ég grét nánast alla meðgönguna og fjölskyldan hafði dálitlar áhyggjur af þessu.  Eftir að ég eignaðist barnið finnst mér ég alltaf þreytt og orkulaus og áhugalaus gagnvart stelpunni minni, sem mér finnst mjög leiðinlegt.  Ég er alltaf að reyna en hef bara enga orku til þess og finnst ég ekki enn búin að finna þessa móðurást sem allir tala um. Ég hugsa samt mjög vel um barnið mitt og þykir vænt um hana en finnst ég samt ekki nógu góð í þessu hlutverki.  Svo er ég enn rosalega viðkvæm og ekki sátt við lífið.  Nú er barnið mitt að verða 2ja ára og mig langar bara að verða eins og ég var og hætta að vera svona óánægð.  Getur verið að ég sé eitthvað þunglynd út frá meðgöngunni?  Líka þegar það er svona langt um liðið?  Eða er þetta eðlilegt? 

Með fyrirfram þökk


Komdu sæl

Leiðinlegt að heyra að þér líði svona illa en það getur vel verið um þunglyndi að ræða. Þunglyndi sem byrjar á meðgöngu eða eftir fæðingu er kallað fæðingarþunglyndi og sennilegt að þetta hafi byrjað þá eins og þú lýsir því.  Þar sem þér líður ekkert betur og svona langur tími liðinn myndi ég segja að þú þyrftir að fá hjálp.  Þú þarft að hafa samband við fagfólk til að fá þetta metið nákvæmlega og fá þá meðferð sem þú þarft.  Þú getur byrjað á að hafa samband við heimilislækninn þinn eða pantað tíma hjá geðlækni en þeir munu fara ofan í málin með þér og fara yfir það sem hægt er að gera til að láta þér líða betur.

Gangi þér vel, kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
12. janúar 2009.