Feður og svínaflensa

03.10.2009

Sælar!

Það stendur í svari við fyrirspurn um bólusetningar við svínaflensu að mikilvægt væri að allir sem umgengjust börn undir 6 mánaða væru bólusettir. Ég verð væntanlega bólusett og síðan ætlum við sennilega að takmarka heimsóknir mjög ef það kemur einhver svínaflensubylgja aftur. Hafa nýbakaðir feður engan umfram rétt á bólusetningunni?


Sælar og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn!

Landlæknisembættið hefur flokkað í markhópa fyrir bólusetninguna hér á landi, eins og í öðrum löndum og þessi flokkun byggist annars vegar á áhættumati sýkingarinnar og hins vegar á nauðsyn þess að halda uppi nauðsynlegri starfsemi eins og heilbrigðis- og öryggisþjónustu. 

Þeir sem eru í Markhóp 1 eru hvattir til að láta bólusetja sig þegar bólusetning hefst hér á landi nema þeir hafi þegar fengið staðfesta sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1). Markhóp 1 verður boðin bólusetning á fyrstu 3 vikum eftir móttöku bóluefnisins.

Markhópur 1

 • Einstaklingar eldri en 6 mánaða með eftirtalda sjúkdóma:
  • Alvarlega hjartasjúkdóma, einkum hjartabilun, alvarlega kransæðasjúkdóma
   og alvarlega meðfædda hjartagalla með vinstra til hægra flæði.
  • Alvarlega lungnasjúkdóma, þ.á m. astma sem þarfnast stöðugrar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar.
  • Alvarlega efnaskiptasjúkdóma, einkum insúlínháða sykursýki og barksteraskort.
  • Tauga- og vöðvasjúkdóma sem valda truflun á öndunarhæfni.
  • Alvarlega nýrnabilun.
  • Alvarlega lifrarsjúkdóma sem valda skorpulifur og/eða lifrarbilun.
  • Alvarlega ónæmisbresti.
 • Þungaðar konur, en rannsóknir hafa sýnt að þær eru í aukinni áhættu að sýkjast alvarlega af völdum inflúensunnar.
 • Einstaklingar sem eiga við offitu að stríða (>40 BMI).
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast veika og lasburða einstaklinga og starfsmenn sem nauðsynlegir eru starfsemi heilbrigðiskerfisins. Í þessum hópi eru einnig starfsmenn hjúkrunarheimila og sambýla.
 • Lögregla, björgunarsveitir, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn.

Í framhaldi af því verður Markhópi 2 boðin bólusetning en hann samanstendur af eftirtöldum
einstaklingum:

 • Heilbrigðum börnum 6 mánaða til og með 18 ára.

Að þremur vikum liðnum verður öllum almenningi boðin bólusetning.

Samkvæmt þessu eru hvorki nýbakaðir feður né nýbakaðar mæður í fyrsta forgangi með bólusetningu en ættu að nýta sér hana um leið og hún verður boðin öllum almenningi. Ef Svínaflensan gerir vart við sig fyrir þann tíma er mikilvægt að viðhafa allar þær varúðarráðstafanir sem mögulegt er. Sjá nánar á www.influensa.is.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. október 2009.

Heimild: www.influensa.is