Spurt og svarað

22. janúar 2009

Fóstur missir eftir 20 vikur og 6 daga

Sælar þið yndislegu konur!

Ég er með nokkrar spurningar. Ég missti barnið mitt eftir 20 vikna og nokkra daga meðgöngu vegna krónískar botnlangabólgu. Ég var rúmliggjandi í næstum tvær vikur fyrir fæðingu og fékk ekki klósettferðaleyfi og eftir rúmleguna hefur mig svimað alveg hræðilega þegar ég hreyfi mig. Hversu lengi á þessi svimi að vera? Fyrst ég átti barnið eðlilega þá er ég auðvitað í úthreinsun en hversu lengi varir hún eftir aðeins hálfnaða meðgöngu? Get ég verið viss um að þetta gerist ekki aftur á næstu meðgöngu? Fæ ég aukið eftirlit? Hversu lengi eftir á verð ég með samdrætti? Ekki er legið 6 vikur að verða eins og það á að vera eftir bara 20 vikur? Hvenær fara tíðablæðingar í gang eftir svona lagað? Og svo vandræðalega spurningin: Hvenær má ég fara að stunda heimaleikfimi aftur?

Með fyrir fram þökkum.


Sæl og ég samhryggist þér að hafa misst barnið þitt.

Varðandi svimann þinn þá kemur ekki fram hvort þú hafir misst mikið blóð, sem getur verið ástæða en ef hann er enn að plaga þig þá hvet ég þig til að leita læknis. Af skrifum þínum ætla ég að missirinn tengist veikindum þínum og varðandi næstu meðgöngu getur enginn sagt til um fyrirfram hvort að allt gangi vel, því getur enginn lofað. Varðandi aukið eftirlit þá er það eitthvað sem farið er yfir í næstu meðgöngu og væntanlega í upphafi hennar myndir þú fá plan fyrir meðgönguna upp á hvort þörf sé fyrir aukið eftirlit. Ég vænti þess að þú sért laus við botnlangann þannig að það sem kom upp á nú mun örugglega ekki gerast aftur. Varðandi úthreinsun þá er hún mjög mislöng þrátt fyrir fulla meðgöngulengd en yfirleitt er miðað við þessar 6 vikur þó myndi ég ætla að það gæti verið styttri tími hjá þér þar sem legið er minna það sama gildir um tímann sem tekur legið að fara í eðlilega stærð. Samdráttaverkir eru mestir fyrstu dagana eftir fæðingu og duga venjuleg verkjalyf á þá. Tíðarblæðingar ættu að hefjast fljótlega eftir að þú hefur jafnað þig líkamlega, þú átt væntanlega tíma hjá kvensjúkdómalækni í eftirskoðun. Ef ekki þá myndi ég benda þér á að panta þér slíkan, til að sjá allt hafi jafnað sig vel og einnig ef einhverjar spurningar brenna á þér varðandi framtíðarbarneignir.

Heimaleikfimina má stunda þegar þú treystir þér til en á meðan úthreinsun er í gangi skal gæta fyllsta hreinlætis vegna sýkingarhættu þ.e.a.s nota smokkinn.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.