Fóstureyðing

27.07.2006
Vil byrja á því að þakka fyrir frábæran vef.

Ég er með fyrirspurn sem viðkemur fóstureyðingu. Á hvaða stigi meðgöngunnar er hægt að framkvæma fóstureyðingu, er það hægt fyrir 6 viku?   Ég hef heyrt talað um hægt sé að sleppa við aðgerð og fá í staðin einhvers konar töflur er það rétt? Er einhver möguleiki eftir fóstureðingu að erfitt sé að eignast barn aftur?

Kveðja, ein kvíðin.
 

 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Það er hægt að framkvæma fóstureyðingu hvenær sem er fyrir 12. viku. og í raun seinna en þá eru notaðar aðrar aðferðir.  Það er rétt að núna er farið að nota pillur til að framkvæma fóstureyðingu og fær þá konan töflurnar með sér heim og tekur þær þar.  Lyfið veldur samdrætti í leginu ekki ósvipað því sem gerist í fæðingu og losnar þá fóstursekkurinn frá leginu.  Blæðing fylgir í kjölfarið, oft eins og mikil tíðablæðing.  Slæmir verkir fylgjaog er konum ráðlagt að taka verkjalyf við þeim.  Konan kemur svo aftur í skoðun nokkrum dögum seinna.  Þessi aðferð hentar ekki öllum konum en getur sparað einhverjum innlögn á sjúkrahús, svæfingu og aðgerð.
 
Varðandi líkurnar á ófrjósemi eftir fóstureyðingu bendi ég þér á svarið Fóstureyðingar hér á vefnum.


Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
27.07.2006.