Fósturlát eða ekki?

15.09.2006
Ég er tveggja barna móðir.  Í dag byrjaði ég á blæðingum og það kom stór köggull niður.  Þetta var fast í sér og eins og himna yfir þessu.  Mig langar að vita hvort möguleiki sé að þetta sé fósturlát?  Ég er ekki að reyna að eignast barn en hef ekki verið á getnaðarvörnum þar sem ég fór í glasafrjógun. Ég gæti trúað því að ég hafi farið rúma viku framyfir en er ekki með það á hreinu. Mig langar að vita hvað þetta gæti verið?
Kveðja
 

Komdu sæl.
 
Það er mjög erfitt að segja til um hvort þetta hafi verið fósturlát, en ég tel það ósennilegt þar sem þú hefur þurft að fara í glasafrjóvgun í bæði skiptin ef ég skil þig rétt.  Líklegra er að þetta sé blóðköggull en það er einmitt eins og það sé himna yfir þeim ef maður nær að sjá þessar lifrar áður en þær rifna.
 
Bestu kveðjur
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
15.09.2006.