Spurt og svarað

18. nóvember 2008

Frekur fjögurra mánaða?

Þannig er mál með vexti að ég á lítinn strák sem er að verða fjögurra mánaða, og langar mig aðeins að spyrja út í eitt.  Hvenær verða börn frek?

Maðurinn minn lætur hann stundum gráta af því að hann er bara "frekur" en ég trúi því ekki að svona lítil börn séu frek, ég held að þetta sé eðlishvöt þeirra, þau eru svöng eða eitthvað að hrjá þau.  Hann lætur litla oft gráta þegar hann er að reyna að svæfa hann, semsagt gráta sig í svefn.  Hann bannar mér að setja snuddu upp í hann, taka hann upp eða gefa honum brjóst/pela því hann er bara að "frekjast" og þetta fer alveg með mig að hlusta á litla minn gráta svona (á endanum tek ég hann alltaf upp og ég gef honum brjóst/pela þá sofnar hann eins og skot, því ég skynja það að hann er bara svangur!). Við semsagt förum að þræta um það hvort að litli sé bara svangur eða frekur?   Eru börn á þessum aldri "frek"?

Ein frekar pirruð á kallinum ;)

 


 

Komdu sæl.

Þetta er nú spurning um orðalag.  Ég myndi kannski ekki segja að hann sé frekur en vissulega er hann að reyna að stjórna ykkur foreldunum og fá það fram sem hann vill.  Það getur hann fengið með því að gráta, þar sem þú kemur á endanum og tekur hann upp og gerir eitthvað fyrir hann.  Hann veit vel hvernig hann getur fengið það sem hann vill og það er með því að gráta, þá kemur þú.

Í fyrsta lagi þarf að fullvissa sig um það áður en drengurinn er lagður til svefns að ekkert sé að.  Ef þú ert nýbúin að gefa honum að drekka, hann er nýbúinn að fá hreina bleiu, búinn að ropa o.s.frv. getur þú verið viss um að ekkert slíkt ami að honum þegar hann fer að gráta.  Það er líka öruggt merki um að allt sé í lagi ef hann þagnar strax og hann er tekinn upp.  Þá leiðist honum bara og vill gjarnan fá félagsskap og þjónustu. 

Mikilvægt er að foreldrar tali saman um það sem þau vilja leggja áherslu á í uppeldinu og þar koma svefnvenjur sterkt inn.  Ef þið eruð sammála um að hann ætti að læra að sofna sjálfur þurfið þið að vera samtaka í því að kenna honum það, annars vinnið þið á móti hvort öðru sem svo aftur getur ruglað drenginn. 

Það að láta barn gráta sig í svefn getur reynst sumum börnum svolítið harkalegt en önnur læra bara þannig.  Þá er nauðsynlegt að fara inn til hans og leyfa honum að sjá mömmu eða pabba, og sussa á hann á þriggja mínútna fresti.  Engin þjónusta samt.  Mildari aðferð er að vera inni hjá honum þannig að hann sjái mömmu eða pabba, jafnvel koma við höfuðið hans en horfa ekki á hann, ekki tala við hann eða veita neina þjónustu aðra en að hann finnur fyrir hönd á kolli.  Eftir nokkra daga má færa höndina niður á handlegg og svo á fótlegg, næst að koma ekkert við hann heldur vera bara hjá honum og snúa undan.  Færa sig svo smám saman útúr herberginu eftir því sem tíminn líður.  Ef þið ákveðið að hann megi bara sofna við brjóstið eða uppí hjá ykkur þá er líka best að vera sammála um það. 

Almenna reglan er samt sú að því fyrr sem barninu eru kenndar ákveðnar reglur því betra.  Börnum líður best þegar þau þekkja reglurnar.  Þess vegna getur líka verið gott að hafa alltaf sömu rútínuna á kvöldin þegar hann á að fara að sofa t.d. að drekka hjá mömmu svo fer pabbi með hann inn í herbergi, setur hann í náttfötin og leggur í rúmið.  Þannig lærir hann að þegar pabbi tekur hann og klæðir hann í náttföt þýðir það að hann eigi að fara að sofa.

 

Kveðja og gangi ykkur vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
18. nóvember 2008

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.