Fylgjulos á fyrri meðgöngu o.fl.

26.06.2007

Sæl og takk fyrir frábæran vef, hann nýttist mér mjög mikið á meðgöngunni.

Þannig er mál með vexti að ég var sett þann 10. febrúar og fram að miðjum desember gekk meðgangan mjög vel. Frá miðjum desember og fram í janúar þurfti ég að fara þrisvar upp á spítala vegna þess að ég var með svo mikla verki. Í öll skipti var ég skoðuð og leghálsinn var byrjaður að mýkjast og í síðasta skiptið var ég komin með 2 í útvíkkun en allir verkir duttu niður við lyfjagjöf. Í öll skiptin var mér skipað að hvílast meira og að lokum þurfti ég að hætta alveg að vinna og liggja útaf. Ég fæði svo eftir 35 vikur og 3 daga og gekk fæðingin mjög vel en þegar fylgjan fæðist þá kemur í ljós að hún var öll sundurtætt og fylgjulos var að byrja. Okkur hjónunum langar nú alveg í annað barn en ég er bara að velta því fyrir mér hvort að hægt sé að sjá fylgjulos í sónar? Í öll þessi þrjú skipti var ég aldrei sett í sónar, einungis í monitor og finnst mér það dálítið skrýtið eftirá. Þar sem að fylgjulos á fyrri meðgöngu eykur fylgjulos á síðari meðgöngu þá hef ég dálitlar áhyggjur af þessu. Yrði þá betur fylgst með mér á næstu meðgöngu?

Einnig langaði mér að forvitnast um leynda sykursýki en það kom aldrei neitt fram í þvaginu. Hinsvegar var barnið tæpar 11 merkur sem telst nú frekar stórt miðað við 35 vikna meðgöngu. Hvernig er hægt að komast að því hvort að maður sé með leynda sykursýki og þarf að biðja sérstaklega um það í mæðraskoðun?

Með von um svar.


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina!
 
Ég skil vel að þú sért áhyggjufull, þar sem þú ert að plana næstu þungun. En það sem ég get ráðlagt þér er að fá viðtal við fæðingarlækni. Einnig er til teymi sem kallað er „Ljáðu mér eyra“ en það er teymi ljósmæðra og lækna sem hjálpa fólki að takast á við fyrri meðgöngur og fæðingar sem hafa verið erfiðar og fara í gegnum þessa fyrri meðgöngusögu þá færðu betri svör og getur planað næstu þungun. Einnig þetta með leyndu sykursýkina það er hægt að gera sykurþolspróf t.d. við 26-28 vikur meðgöngu til að sjá hvort þú sért með skert sykurþol eins og það er kallað, það þarftu einnig að tala um við fæðingarlækninn.
 
Með von um að þetta hjálpi þér að einhverju leyti og gangi þér vel.


Kveðja,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júní 2007.