Gæti ég í alvöru verið ólétt?

13.12.2010

Sælar!

Ég er 31 árs og á eina 6 ára dóttir. Við hjónin erum búin að vera reyna eignast annað barn í næstum því 4 ár núna. Við erum búin að fara í gegnum 1 tæknisæðingu, 2 smásjárglasafrjóvganir og eina meðferð með gjafaeggi og ekkert af þessu hefur tekist. Ég er eiginlega komin á það að gefast upp, nema núna er ég orðin 4 daga of sein á blæðingum og ákvað áðan að prófa bara svona i forvitni að taka eitt þungunarpróf og það kom jákvætt. Kom strax mjög dökk augljós lína. Ég er í sjokki en er samt að reyna segja við sjálfan mig að þetta hljóta að vera mistök því þetta getur ekki verið, eftir allar meðferðinar sem við erum búin að fara í. Hef ekki sagt neinum í kringum mig þetta því þetta hlýtur að vera eitthvað rugl. Núna veit ég ekki hvað ég á að gera. Ætti ég ekki að fara strax upp í Artmedica í skoðun?


Sæl og blessuð!

Það er ekkert útilokað í þessu sambandi. Þungunarpróf eru vissulega ekki 100% en það er sjaldgæft að þungunarpróf gefi falskt jákvætt svar. Þungunarpróf mælir magn meðgönguhormónsins hCG í þvagi og það er ekki til staðar ef ekki hefur orðið þungun. Þú getur örugglega haft samband við Artmedica og fengið skoðun þar fljótlega.

Vonandi er lítið kraftaverk á leiðinni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2010.