Gengur illa að gefa AD dropa

27.08.2005

Sælar!

Þannig er að ég er með einn strák sem er að verða 3 mánaða og þegar hann var  1 mánaða prófaði ég að gefa honum þessa AD-dropa hægt og rólega, 1 í einu og svo 2 og þar fram eftir götunum. En hann varð svo pirraður og með í maganum eftir þá, var komin upp í 4 dropa þegar hann tók uppá því að æla lon og don og var mjög pirraður en grét ekki svo ég hætti og þá varð hann allt annar. Svo í síðustu viku prófaði ég aftur því hjúkkan sagði að ég yrði að gefa honum þá og þá fór allt í sama farið, hann varð pirraður og ælandi. Hvað gerir maður í svona stöðu? Hjúkkan sem við hittum í heilsugæslunni vill bara að hann fái dropana og ekkert múður! Ég samt vil ekki vera að pína þetta meira ofan í hann! Veit um nokkur börn sem hafa ekki fengið þessa dropa og eru ekkert verri en hver önnur börn og eru heilsuhraust og með góð bein! Tek það fram að hann er ekki á brjósti því það gekk ekki upp. Endilega sendið mér svar um þetta sem fyrst.

Kveðja, ein alveg lost.

............................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Það er leiðinlegt að heyra um ykkar ófarir. Það getur komið fyrir, að börn þoli illa AD dropana í byrjun en jafni sig á því með tímanum. Í staðinn getur þú prófað að gefa honum venjulegt lýsi (þorskalýsi) og séð, hvernig það fer í hann. Þá er mælt með því að byrja smátt og auka skammtinn smám saman upp í sex til átta dropa. Við hálfs árs aldur má gefa hálfa teskeið og við eins árs aldur, eina teskeið (5ml.), fram að sex ára aldri. Krakkalýsi er einnig til og þarftu þá að lesa utan á umbúðir þess til að komast að skammtastærðinni og fyrir hvaða aldur það er ætlað. Vona að þetta gangi hjá ykkur því lýsið er jú mikilvægt fyrir líkamann og leggur grunn að heilbrigði barnsins um alla framtíð.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. ágúst 2005.