Spurt og svarað

21. júní 2005

Göngugrindur og hoppurólur

Sælar!

Við konur á Barnalandi erum búnar að vera að velta fyrir okkur göngugrindum og hoppurólum. Höfum oft heyrt að þessir hlutir séu annaðhvort mjög góðir fyrir börnin eða mjög slæmir, að börnin megi ekki nota þetta fyr en þau geta setið eða séu komin með styrk í fæturnar. Sjálf hef ég til dæmis oft heyrt að börnin getað orðið hjólbeinótt á þessu. Getið þið fróðu konur upplýst okkur eitthvað um notkun þessara hluta, þ.e. hvort hoppurólur og göngugrindur séu æskilegar eða ekki?

Með fyrirfram þökk.

...........................................................................

Komið þið sælar konur og takk fyrir að leita til okkar.

Já, það eru framleidd ýmiss konar hjálpartæki fyrir börn, sem eru ekki öll jafn gagnleg og sum geta jafn vel verið þeim skaðleg, sé eftirlit með börnunum ófullnægjandi á meðan þau nota hjálpartækin. Sannleikurinn er sá, að allt er best í hófi og á það jafnt við um hopprólur og göngugrindur. Sum þessara hjálpartækja (eins og hopprólur og göngugrindur) þjálfa fremur einhæfar hreyfingar hjá barninu og vöðvastyrk t.d. í fótum en ekki alhliða hreyfiþroska þess. Barnið fær mun betri þjálfun í hreyfiþroska og færni með því að liggja á gólfinu og velta sér og reyna þaðan að komast upp á fjórar fætur og skríða en nota hjálpartæki eins og hopprólur og/eða göngugrindur. Skriðið er ein fjölhæfasta þjálfun, sem barnið getur fengið. Við það þjálfast styrkur í höndum, baki, kvið og fótum auk þess sem samhæfing handa og fóta þjálfast.
Í gamla daga var beinkröm algengur sjúkdómur hjá mannfólkinu og lýsti sér með bognum beinum, sem orsakaðist af D-vítamínskorti. Þannig gátu börn orðið hjólbeinótt ef beinin voru ekki nógu sterk fyrir það álag, sem lagt var á þau. Í dag þekkist beinkröm varla, því börnum er gefið lýsi frá fjögurra vikna aldri og þau fá nægjanlegt kalk úr fæðunni til að styrkja beinin.

Ég læt fylgja hérna með upplýsingar af netinu um göngugrindur og á þessum vef má finna ýmiss konar fræðslu og upplýsingar um börn og slysavarnir barna, sem Herdís Storgaard heldur utan um og er hún öflugur slysavarnarfulltrúi barna hér á Íslandi. Vefslóðin er www.lydheilsustod.is og smellt á Árvekni.

Vonandi gagnast ykkur fróðleiksfúsu konum, þessar upplýsingar.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. júní 2005.

Göngugrindur
Fæstir vita að göngugrindur geta verið hættulegar börnum.  Í þeim hafa orðið mörg slys þar sem börn hafa slasast illa og jafnvel dáið.   Börnin geta náð miklum hraða í þeim og komist á staði sem þau annars myndu ekki komast á. Slysin verða oft þegar göngugrindin sporðreisist með barninu í, t.d. þegar barnið keyrir á þröskuld, lausa mottu á gólfinu eða annað slíkt.  Einnig hafa orðið mörg alvarleg slys þegar börnin hafa togað í rafmagnssnúrur sem hanga niður og fengið yfir sig þung rafmagnstæki.  Vitað er um mörg dæmi þar sem börn hafa togað yfir sig hraðsuðukatla með sjóðheitu vatni og hafa þau hlotið mikil og alvarleg brunasár.  Banaslys hafa orðið þegar börnin hafa ýtt sér niður stiga.

Slys í göngugrindum verða fæst þegar börnin eru ein heldur verða þau oftar þegar verið er að fylgjast með þeim eða einhver fullorðinn er nálægt. Foreldrar átta sig oft ekki á þeim hraða sem barnið nær í göngugrindinni og ná oft ekki að koma í veg fyrir slysið þrátt fyrir að þeir sjái í hvað stefnir.

Í rauninni er ekkert sem mælir með notkun göngugrinda.  Eins og fram kemur að ofan eru þær hættulegar m.t.t. slysa og það er heldur ekki æskilegt fyrir smáa líkama barna að vera lengi í þeim.  Álag á bak barnsins er mikið og þegar það hættir að nota göngugrindina eftir að hafa lært að ganga þarf það að læra aðra göngutækni.  Rannsóknir hafa sýnt að börn sem nota göngugrindur fara að ganga að meðaltali tveimur vikum seinna en þau börn sem ekki nota slíkar grindur.

Nokkur atriði sem hafa þarf í huga við notkun göngugrinda

 • Skoðið vel allar merkingar á göngugrindinni áður en notkun hefst.  Á henni ættu að vera upplýsingar um hámarksþyngd og fleira.
 • Æskilegt er að barnið hafi náð 6 mánaða aldri áður en að það byrjar að
  nota göngugrindina.   Ekki má þó einungis miða við aldurinn heldur verður
  einnig að horfa á þroska barnsins.  Barnið verður að geta haldið höfði og setið óstutt.  Börn eiga ekki vera lengur en 10-20 mínútur í senn í grindinni.  Ekki er æskilegt að nota göngugrind eftir 15 mánaða aldur, þó að barnið sé ekki farið að ganga óstutt.
 • Barnið þarf að ná með báðum fótum niður á gólf, svo ekki sé hætta á að það renni úr sætinu.
 • Skiljið barnið aldrei eftir eftirlitslaust í göngugrind.  Hafið augun á því allan tímann og farið ekki langt frá því á meðan það er í grindinni.
 • Leyfið barninu ekki að vera í göngugrind nálægt stigum, þrepum eða þröskuldum.  Lokið hurðum og setjið öryggishlið fyrir stiga.  Ekki er mælt með að nota svokölluð "þrýstihlið" fyrir stigann þar sem barnið getur ýtt sér af miklu afli á það, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
 • Verið viss um að á gólfinu sé ekkert sem getur valdið því að göngugrindin sporðreisist, t.d. lausar mottur eða aðrir lausir hlutir.
 • Til að fyrirbyggja brunaslys, leyfið barninu ekki að vera í göngugrindinni nálægt heitum ofnum, arni eða öðrum heitum hlutum.  Gangið frá rafmagnssnúrum þannig að barnið nái ekki að toga yfir sig þung og/eða heit rafmagnstæki.
 • Ef á göngugrindinni eru leikföng s.s. símar og hringlur er mikilvægt að fylgjast með því að þau séu vel fest og ekki sé hætta á að þau losni af.
 • Haldið ekki á göngugrindinni á meðan barnið er í henni.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.