Göngutúr með ungbarn í frosti

28.11.2006

Sælar,

Takk fyrir góðan vef, hann er búin að reynast mér rosalega vel.

Nú hefur frostið verið mikið undanfarið og ég er alltaf svo óviss hvort ég eigi að fara út að labba með stelpuna mína sem er nýorðin 3ja mánaða.  En ég hef farið frekar út að labba með hana daglega í stað þess að láta hana sofa úti á svölunum. Hvaða mörk ætti ég að hafa, ég hef hingað til miðað við að fara ekki út með hana ef frostið er -5 gráður eða meira.

Er það óábyrgt af mér að fara með hana í þó það miklu frosti. Ég klæði hana auðvitað vel, hún er í góðum poka og með dúnsæng líka. Við erum úti í u.þ.b. klst.

Stelpumamma.


Sæl, stelpumamma!

Það er ekki óábyrgt af þér að fara með stelpuna út að ganga í stuttan tíma, þó það sé frost úti, enda þótt ekki sé mælt með útisvefni barna í nokkra tíma í frosti. Eins og komið hefur fram í fyrri fyrirspurnum hér á síðunni varðandi útisvefn, skiptir máli hvað það er mikill vindur úti, sem eykur frostgildið, hvort þú ferð út að ganga með barnið eða ekki. Yfirleitt eru mæður ekki úti að spóka sig með barnavagna í hávaðaroki og frosti. Það sköpuðust óvenjulegar aðstæður hérna um daginn, þegar frostið fór upp í allt að -10°C samfara miklum vindi, sem hækkaði frostgildið upp í -35°C.
Mér finnst þú einmitt vera ábyrg mamma að bera þessa fyrirspurn upp.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. nóvember 2006.