Spurt og svarað

07. febrúar 2007

Goðsögn um lykkjubörn

Sæl! 

Ég var að komast að því að ég væri ólétt og það kom mér mjög mikið á óvart þar sem að ég er á koparlykkjunni. En þessari frétt var samt sem áður tekið mjög vel á heimilinu. Mig langar bara aðeins að forvitnast um smá sem ég heyrði í dag sem mér fannst frekar áhugavert. Það var kona sem sagði við mig að þetta yrði mjög líklega stelpa hjá mér þar sem að 90% af öllum lykkjubörnum væri stelpur. Er eitthvað til í þessu eða er þetta eitt af svona þessum skemmtilegu „Urban myths“? Svo þegar ég fór að hugsa þetta fannst mér þetta frekar fyndið þar sem ég þekki 4 „lykkjubörn“ og allt eru það konur.

Bara smá forvitni;0)

Kær kveðja, lykkjumamma.


Komdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is!

Ég hef sjálf gaman af mítum en oft vill það verða að þær geymast ekki lengi í minninu. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessa en hún er kærkomin í safnið! Takk fyrir það. Veit sjálf af nokkrum lykkjubörnum og ef ég hugsa um það þá eru þær kvenkyns! En ég reyndi að finna „alvöru“ tölfræði og vísindi, en varð lítið áleiðis.

Þá þarf að fara í einhvers konar hugarleikfimi til að styðja við mítuna! Það er oft sagt að börn sem fæðast við tæknisæðingu séu frekar drengir og felst það í þeirri staðhæfingu að karlkynssæðisfrumur eru taldar kappsfyllri og duglegri sundgarpar, en ekki eins lífsseigar og baráttuglaðar til langframa og kvenkynssæðisfrumur! Þegar tæknisæðing er gerð þá er reynt að hitta nákvæmlega á egglosdaginn og því líklegra að þessar duglegu karlkynssæðisfrumur hitti eggið fyrr en vinkonur þeirra kvenkynssæðisfrumurnar. Það gæti hins vegar verið ein ástæða þess að kvenkynssæðisfrumur láti koparlykkjuna ekki aftra sér í því að láta frjóvgun heppnast, sem er jú markmið þeirra til að lifa af! Ein verkun koparlykkjunar er einmitt sú að virkni koparsins á að koma í veg fyrir það að sæðisfrumurnar komist að egginu en hinar lífsseigu kvenkynssæðisfrumur láta sem sagt engan bilbug á sér finna og „lifa af“, komast í gegnum hindrunina. En þetta er auðvitað sjaldgæft þar sem talað er um að koparlykkjan sé ein öruggasta getnaðarvörnin eða 99% örugg.

Þetta gæti a.m.k. verið ein útgáfa af mörgum varðandi lífsseig stelpubörn.

Gangi þér vel.

 
Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.