Spurt og svarað

14. apríl 2008

Grænar hægðir hjá ungbörnum

Mig langar að forvitnast um það, hvað merkir það ef ungabarn er með grænar hægðir. Var spurð af því í síðustu skoðun hvort hún vær með grænar eða gular hægðir og þá hafi ég bara séð hjá henni gular hægðir og þá sagði hjúkrunarkona sem skoðaði hana að það vær gott. Ég á 4 vikna dóttir og hef tekið eftir því núna að hún er stundum með grænar hægðir. Er hún þá ekki að fá nóg að borða? Hún er voða vær og góð og það er ekki sjá að það ami eitthvað að henni. Lætur rétt svo hæra í sér þegar hún er svöng og fær hún að drekka á 3 tíma fresti yfir daginn og á svona 4 til 5 tíma fresti á nóttunni. Hún léttist svolítið eftir fæðingu og var í síðustu skoðun búin að ná fæðingaþyngdinni upp.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það kemur ekki fram hjá þér hvort dóttir þín er eingöngu á brjósti eða að fá þurrmjólk.  En ég reikna með að hún sé eingöngu á brjósti.  Þú getur verið alveg róleg. Barn sem er eingöngu á brjósti og dafnar vel má hafa allskonar hægðir. Þær mega vera í flestum litbrigðum nema ef mann grunar blóð í hægðum. Þær breytast líka oft í þéttleika og lykt. Þetta tengist oft því sem móðirin er að borða og er gott merki um eðlilega meltingu. Brjóstabörn fá jú svolítið mismunandi efni gegnum mjólkina eftir því hvað móðirin borðar og þau melta það náttúrlega svolítið mismunandi. Börn á þurrmjólk fá hins vegar alltaf nákvæmlega eins næringu og hafa því alltaf nákvæmlega eins hægðir. Grænt í hægðum brjóstabarna hefur stundum verið tengt bætiefnum (vítamínpillum) eða grænmeti.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. apríl 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.