Spurt og svarað

26. febrúar 2007

Grautar fyrir börn yngri en 6 mánaða

Takk fyrir góðar upplýsingar.
Ég á strák sem er nýorðinn eins árs. Hann fékk fyrst graut þegar að hann var sex mánaða eins og nýjustu fræði segja til um. Núna kíki ég stundum á umræðuna um 'barnið' á Barnalandi og þar er oft verið að spyrja hvenær sé besti tíminn til að gefa barninu graut. Þá komar ýmsar mæður fram með það að þær hafi byrjað mun fyrr enn sex mánaða á að gefa börnum sínum graut, allt niður í þriggja vikna! Ástæðurnar segja þessar mæður vera ýmsar;
     Til á fá barnið til að sofa lengur.
     Því vanatði fyllingu.
     Af því að þannig var gert áður fyrr og þeim varð nú ekki meint af!
Nú spyr ég:
1. Hvaða slæmu áhrif getur matur haft á börn fyrir sex mánaða aldur?
2. Hvers vegna virðast svo margar mæður ekki vita um að sex mánaða aldurinn sé málið?
3. Getur það verið að sumum börnum vanti fyllingu fyrir sex mánaða aldurinn, allt niður í kannski þriggjá mánaða  aldur?
Vonandi getið þið skýrt málin fyrir mér og mörgum öðrum. Áður enn fólk fer að halda að bæklingurinn um nærgingu barna sé bara skrifaður í gríni!Komdu sæl.

Ég tek því svo að drengurinn þinn hafi eingöngu verið á brjósti til 6 mánaða og ég óska þér til hamingju með það!

Ungbarnagrautar, sem gerðir eru fyrir yngstu börnin, hafa ekki  endilega slæm áhrif á þau.  Hinsvegar eru grautar þyngri í maga en móðurmjólkin og tormeltari þannig að lengra liður á milli þess sem barnið þarf að drekka.  Hættan er því að barnið sjúgi ekki eins mikið og oft brjóstið og áður, móðirin framleiði því ekki nægilega mikla mjólk fyrir barnið og því þarf það að fá meiri graut.  Þetta verður "vítahringur" sem leiðir til þess að barnið fær minna af brjóstamjólkinni sem er jú besta og hollasta fæðan fyrir börn fram að 6 mánaða aldri.  Það eru allir sammála um það.  Mælt er með því að börn fái eingöngu brjóstamjólk til 6 mánaða aldurs og því er ekki hægt að mæla með grautum á þeim tíma af þessum orsökum.  Einnig má geta þess að meltingin ræður síður við grauta en mjólk og því geta börn fengið í magann af grautnum svona fyrst í stað, sérstaklega ef þau eru mjög ung þegar þau byrja að borða graut.  Ef barnið þarf ábót er frekar mælt með þurrmjólk en graut sérstaklega fyrstu vikurnar og mánuðina. 

Allar mæður fá bækninginn um fæðu ungbarna og ráðleggingar um fæðu í ungbarnaeftirlitinu þannig að ef nýbakaðar mæður lesa það fræðsluefni sem þær fá ættu þær allar að vita þetta.  Það er samt ekki hægt að skikka fólk til að lesa fræðsluefni og/eða fara eftir því.  Þetta verður á endanum val foreldranna sjálfra hvað þau gera.  Hinsvegar ýtir umræða eins og þessi á barnalandi undir það að fleiri fari þessa leið og byrji snemma að gefa barninu sínu graut af því að hinar gera það.  Nú spyr ég:  Er umræða um það á Barnalandi hvað konur eins og þú eruð duglegar að hafa börnin eingöngu á brjósti til 6 mánaða?  Og hvað það kemur börnunum ykkar til góða út allt lífið að hafa verið svona lengi á brjósti t.d. með minni líkum á sykursýki sem er vaxandi vandamál í heiminum?  Ef það er þá er það frábært og mun hvetja fleiri konur til að gera það sama.

Að lokum við ég taka fram að bæklingurinn er ekki skrifaður í gríni heldur samkvæmt því sem best er vitað í dag.  Rökin að þetta hafi verið gert við mig og ég er í lagi eru heldur gagnlítil í svona umræðu.  Hér áður fyrr fengu börn fisk um þriggja mánaða aldur en það myndi enginn gera í dag vegna ofnæmishættu.  Ef barninu vantar "fyllingu" er það sennilega í vaxtarspretti og þarf að fara oftar á brjóst í nokkra daga til að ná upp mjólkurframleiðslu mömmu sinnar.  Að fá barnið til að sofa lengur með þessari aðferð er kannski fullsnemmt.  Þroskalega séð er barnið ekki tilbúið til að sofa alla nóttina, í 6-8 tíma, fyrr en það er orðið 7 kg eða 6 mánaða.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
25.02.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.