Spurt og svarað

25. maí 2005

Grautargjöf fyrir svefninn

Sæl!

Ég á fimm mánaða stúlku sem þyngist rosa vel, um 250 gr á viku. Málið með hana er bara það að hún vaknar á 2 til 3 tíma fresti allar nætur og vill drekka! Hún er ekkert að snuddast neitt, því hún virkilega drekkur vel á nóttunni. Ég hef lesið hér á vefnum að sumar konur eru að láta pabbana stinga snuddu upp í þau á nóttunni til að láta þau vita að engin mjólk sé í boði þá - ráð og aftur ráð - en ég hef bara ekki þor í það að byrja eitthvað svoleiðis dæmi þar til einhver eins og þú hefur sagt mér að það sér rétt ákvörðun, því fyrir mig þá vil ég ekki að barnið mitt vakni upp, gráti af þorsta og ég læt bara stinga upp í hana snuði. Skil að til eru börn sem vilja bara totta smá í geirvörtu móðurinnar og þá er kannski snuddan lausn en hún virkilega drekkur vel í næturgjöfunum! Vandinn er bara sá að ég er þreytt. Ég er í fjarnámi og ég til að mynda legg mig ekki með henni á daginn heldur nota ég timann til að læra. Hvað á ég að gera? Þrauka þar til hún verður 6 mánaða eða gefa henni 1 teskeið af graut áður en hún fer að sofa (hef heyrt að í mörgum tilfellum sofi þau fleiri tíma ef þau fá pínu graut). Hún hefur aldrei fengið ábót né stoðmjólk, aðeins brjóstamjólk.

Ég vona að ég fái svar frá þér. Með fyrirfram þökk. Þið eruð yndislegar og hafið hjálpað mér mikið:o)

.........................................................................

Sæl og blessuð!

Líkami konunnar framleiðir mest af mjólkurframleiðsluhormónum á nóttunni og þar af leiðandi mjólk (svo fremi sem barnið fái að drekka). Það er því alltaf illa gert gagnvart barninu að svipta það stærstu og bestu gjöfunum. Börn sem eru að taka litlar nartgjafir á nóttunni eru yfirleitt börn sem eru látin sofa í burtu frá mömmu sinni. Þ.e.a.s. þau biðja um að drekka því þá eru þau tekin í faðm. Þau eru ekki endilega svöng. Svo þegar þau hafa tekið nokkra sopa er tilganginum náð og þau fara að sofa sæl og ánægð. Um leið og þau eru lögð ein niður aftur mótmæla þau. Það að barn vakni 1-2 sinnum á nóttu hljómar ekki hræðilega í mínum eyrum. Ég trúi því varla að nokkur móðir ætlist til þess að fá óskertan unglinganætursvefn með ungbarn. Ég veit vel að sum börn sofa allar nætur en það eru undantekningar og oft eru það börn sem eru heldur í léttari kantinum. Mér finnst þitt sjónarmið mjög heilbrigt.

En ég skil vel að þú sért þreytt. Þú verður að finna þér tíma sem þú getur hvílt þig á. Það þarf ekki endilega að vera svefn en alla vega hvíld. Það græðir enginn á því að þú keyrir þig út. Hvorki námið, barnið eða þú. Skilaðu heldur aðeins lélegri verkefnum en haltu geðheilsunni og hraustu barni. Ég mæli með því að þú þraukir til 6 mánaða og ekki búast við kraftaverki þegar barnið byrjar að borða. Það getur tekið svolítinn tíma að breyta fæðuvenjum.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.