Grautur fyrir 4 mánaða?

08.10.2005

Sælar!

Ég er með einn 4 mánaða og hefur hann verið að drekka vel hingað til og sofið allar nætur fyrir utan eina næturgjöf. Núna er hann að byrja að vakna 2-3 sinnum á nóttunni til að fá að drekka. Á daginn drekkur hann á tveggja klst fresti. Hann þyngdist mjög vel á fyrstu vikunum. En upp á síðkastið hefur hann bara verið að þyngjast um 100 gr á viku. Er það nóg? Hann er mjög vær og góður, grætur nánast aldrei, ég set hann á brjóst til að athuga hvort hann er svangur því hann biður ekki um. Þarf ég að fara að gefa honum graut eða er þetta eðlilegt?

.....................................................................

Sæl og blessuð.

Þetta hljómar nú allt mjög eðlilega hjá þér og engin ástæða fyrir þig að láta þér til hugar koma að gefa graut. Öll börn fara í gegnum skeið þegar þau þurfa allt í einu mun fleiri gjafir. Þetta eru yfirleitt stutt tímabil og síðan fara þau í gamla gjafafjöldann aftur. Ef þeim tekst ekki að fá nógu margar gjafir yfir daginn þá taka þau þær á nóttunni. Það er líka eðlilegt að þyngdaraukning brjóstabarna sé í sveiflum. Þú athugar að þú (eða réttara sagt hann) græðir marga góða hluti á að gefa ekki graut eða neitt annað í fulla 6 mánuði eftir fæðingu. Það er ekki út í loftið sem verið er að setja akkúrat þessi tímamörk.  Haltu áfram á sömu braut og gangi þér vel.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. október 2005.