Grindarbotnsvöðvar

05.12.2007
Hæ, hæ og takk fyrir góða síðu.

Ég er að velta því fyrir mér hvaða tilgang hafa grindarbotnsvöðvarnir? Ég er alltaf að heyra um að maður eigi að gera grindarbotnsæfingar en hvers
vegna er það?

Bara smá forvitni.


Sæl og blessuð!

Grindarbotnsvöðvarnir eru samansafn nokkurra vöðva sem liggja í lögum í botni mjaðmagrindarinnar. Hlutverk þeirra er að styðja við og halda grindarholslíffærunum á sínum stað í grindinni, það er að segja þeir sjá um að halda blöðrunni, leginu og leghálsinum og neðsta hluta ristilsins á sínum rétta stað. Á meðgöngu og í fæðingu slaknar á þesum vöðvum og þeir þurfa að gefa mikið eftir þar sem barnið þarf að komast þarna í gegn. Ef grindarbotnsvöðvarnir erum slappir þá geta konur fengið ýmsa hvimleiða kvilla eins og til dæmis blöðrusig og legsig. Þetta gerist nú yfirleitt ekki fyrr en konur eru komnar á eldri ár og/eða eru búnar að fæða mörg börn um fæðingaveg.Það er því mikilvægt fyrir allar konur að gera reglulega grindarbotnsæfingar til þess að halda þessum mikilvægu vöðvum í góðu formi. Sérstaklega þurfa þeir á góðri styrkingu að halda eftir fæðingu.

Með bestu kveðju,

Halla Björg Lárusdóttir
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
2. desember,2007.