Spurt og svarað

24. nóvember 2005

Hægðatregða hjá 7 og ½ mánaða

Sæl!

Gaman væri ef þú/þið gætuð hjálpað mér. Dóttir mín er 7 og ½ mánaða. Ég byrjaði að gefa henni að borða með brjóstinu þegar hún var 6 mánaða. Hún hefur fengið grauta og krukkumat. Eins fær hún stundum kjötbita og brauð. Borðar allt og ég hef pabbann grunaðan um að gefa henni flest það sem hann er að borða og hún biður um, nema þá mjólkurmat því ég hef verið afar ströng við hann með það. Nú er hún með harðlífi og síðustu daga hefur hún lokað fyrir eða sperrt út lappirnar svo að hægðirnar koma ekki. Þó hafa sloppið sparð og sparð. Hægðirnar eru illa lyktandi, þykkar en ekki beint harðar. Ég hef reynt að ná henni áður en hún sperrir sig en ég veit að það eru hægðir eftir hjá henni. Hvernig get ég hjálpað henni að losa sig við þetta sársaukalaust  og hvað á að taka út í fæðunni??

Með von um ráð, Lilja.

................................................................................................

Komdu sæl, Lilja!

Það er ekki óeðlilegt að þéttleiki hægðanna breytist, þegar börnin byrja að borða fasta fæðu í þá veru að verða þéttari. Hins vegar er oftast hægt að halda þeim mjúkum með mataræði, til að koma í veg fyrir, að börnin fari að halda í sér hægðum, sem þau gera stundum ef þau finna til óþæginda við að hægðalosun. Haldi þau í sér hægðum, getur myndast vítahringur í kringum hægðalosunina. Því lengri tími sem líður á milli hægðalosunar þeim mun þéttari og harðari verða þær og erfiðara reynist að losna við þær.

Til eru ýmis gagnleg úrræði og oft er byrjað á  gefa börnunum aukalega vökva t.d. brjóstamjólk þar sem dóttir þín er sjö og hálfs mánaða og enn á brjósti, er líka rétt hjá þér að forðast annan mjólkurmat. Sveskjumauk eða sveskjusafi er hægðamýkjandi og er hægt að setja út í grautinn. Nota fremur hafragraut en hrísmjölsgraut. Hægt er einnig að kaupa maltextrakt í apóteki, sem er blandað í vatn og gefið barninu, en lesa þarf vandlega utan á leiðbeiningarnar um skammtastærð og magn samsvarandi aldri barnsins. Einnig eru til hægðalyf, sem fást eingöngu með ávísan læknis og eru oftast ekki notuð fyrr en í harðbakkann slær og önnur úrræði hafa ekki komið að gagni.

Ef þú heldur að barnið sé farið að halda í sér hægðum er ef til vill hægt að nota gamalt húsráð sem felst í því að örva hægðalosunarviðbragðið með því að stinga varlega endaþarmshitamæli, smurðum með vaselíni fremst, stutt upp í endaþarminn. Barnið er þá annað hvort liggjandi á bakinu og fótum þess haldið uppi eða barnið er látið liggja á maganum t.d. þvert yfir lærin á þér og fætur barnsins vísa þá til gólfs. Þetta getur komið hægðum af stað. Ef hægðirnar eru mjög harðar gætir þú þurft að styðja við endaþarmshringvöðvann utan frá, með tveim fingrum, til að hjálpa barninu að losna við þær, án mikilla óþæginda.

Svo ættirðu að fylgja ráðleggingum bæklingsins: Næring ungbarna, sem allar mæður eiga að fá hjá heilsugæslunni og ræða þetta mál við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni. Það er líka mikilvægt, að þú vitir hvað pabbinn er að gefa barninu að borða og þið séuð í samvinnu með það. Vona, að þetta komist í gott horf hjá ykkur og gangi ykkur vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.