Hægðatregða og fótapirringur

19.03.2009

Halló og takk fyrir frábæran vef.

Strákurinn minn er rúmlega 6 mánaða og farinn að borða grauta, grænmeti og ávexti. Hann hefur átt erfitt með hægðir undanfarið og hefur grátið þegar hann er að kúka. Ég hef tekið rísgrautinn, epli og annan stemmandi mat af honum, en samt er hann með harðar hægðir. Ég hef gefið honum smá sverskumauk en það bætir lítið. Hann hefur ekki viljað taka inn malt extrakt og ljósmóðirin mín benti mér á að gefa honum smá sorbitól. Ég hef gefið honum það kannski 2svar sinnum, en ekki virkað. Hvernig er best að taka á þessu hægðartregðu hjá litla snáðanum mínum?

Svo langar mig til að spyrja um fótapirring hjá svona litlum krílum. Sonur minn er mjög oft með krepptar tær og nuddar löppunum saman, frekar oft verð ég að segja. Hann er frekar búttaður og því var ég að velta því fyrir mér hvort það gæti verið að hann væri með bjúg í fótunum. Eins verð ég að passa að hafa hann ekki í sokkum því þá verða fæturnir hvítir, eins og blóðrennslið sé ekki nóg. Er þetta eitthvað sem við ættum að láta skoða frekar?

Bestu þakkir fyrir góðan vef,-b


Komdu sæl.

 

Þú ert á góðri leið og ert með réttu ráðin við hægðatregðunni en það sem ég held að vanti er að halda meðferðinni áfram.  Oftast er svona litlum börnum gefið maltextrakt við hægðatregðu.  Þá blandar þú því út í pelann hans eða grautinn eða annað sem hann er að borða og þarft að prófa þig áfram með hversu mikið hann þarf til að losa mjúkar hægðir reglulega.  Þetta þarf að gera dag eftir dag og jafnvel viku eftir viku þar til vandamálið er úr sögunni.

Á sama tíma er gott að gefa ekki mat sem getur verið stemmandi og fara að gefa honum meira af sveskjumauki.

Ef þú vilt nota Sorbitol þarftu líka að nota það á hverjum degi þar til vandamálið er búið.  Það tekur nokkra daga að virka þannig að þú sérð ekki árangur eftir eitt eða tvö skipti.  Áframhaldandi meðferð skiptir mestu máli. 

Nauðsynlegt er að hann drekki vel og svo má nudda kviðinn hans og hjálpa honum að hjóla með fótunum til að örva þarmastarfsemina.  Nudd þar sem þú leggur lófann á naflann og nuddar svo með fingrunum frá hægri til vinstri er gott, fylgir ristlinum, og líka nudd þvert yfir magann frá hægri til vinstri og svo niður vinstri hliðina á drengnum.

Og þá að hinni spurningunni, það að hann nuddi fótunum saman þarf ekki að þýða neitt sérstakt.  Mörg börn hreyfa sig svona og hann er á þeim aldri að hann er farinn að æfa sig að nota fæturna.  Börn sýna pirring og vanlíðan með gráti en geta ekki staðsett vanlíðanina svo ég mundi bara vera róleg varðandi þetta. 

Það að hann verður hvítur á fótunum þegar hann er í sokkum átta ég mig ekki alveg á nema teygjan í þeim sé mjög stíf og það sé eins og þú segir að hún minnki blóðrásina niður í fætur.  Talaðu um þetta við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni eða lækninn ef þú hefur áhyggjur af þessu.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
19. mars 2009.