Spurt og svarað

06. ágúst 2008

Er óhætt að ferðast í mikla hæð á meðgöngu?

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég er að fara í þriggja vikna ferðalag þegar ég verð komin 18 vikur. Við munum dvelja í um 3600-4000m hæð og mér skilst að oft fái fullkomlega heilbrigðir einstaklingar háfjallaveiki við þessar aðstæður. Eru ófrískar konur líklegri til að fá háfjallaveiki? Er mér óhætt að fara í ferðalagið?

Með bestu kveðju og fyrirfram þökkum.


Sæl og blessuð!

Því miður er ekki mikið vitað um áhrif hæðar á heilsu móður og barns á meðgöngu. Margir vilja meina að konur sem ekki eru vanar að vera í mikilli hæð, þ.e. þær sem búa við sjávarmál eða þar um bil ættu ekki að ferðast til staða sem eru hærra en 2.500 m á meðgöngu. Þegar fólk er komið í yfir 2.500 m hæð geta farið að koma fram einkenni hæðarveiki. Ég veit ekki hvort ófrískar konur eru í meiri hættu á að fá hæðarveiki en margar konur eru andstuttar á meðgöngu og mér skilst að þær finni meira fyrir því í mikilli hæð. Það er svo allt annað sem gildir um konur sem búa í mikilli hæð því þær hafa aðlagst þunna loftinu. Það er þó einkennandi fyrir konur sem búa í mikilli hæð að tíðni meðgöngueitrunar er hærri, börnin þeirra eru almennt léttari og fylgjan er almennt stærri. Þetta eru allt þættir sem geta tengst þunna loftinu.

Ég veit ekki hvort þér er óhætt að fara í ferðalagið, líklega getur enginn sagt af eða á með það nema þú sjálf. Það væri auðvitað leiðinlegt að vera búin að ferðast alla þessa leið og líða svo kannski ekki vel.

Það væri gaman að heyra frá þér aftur - þ.e. hvort þú ætlar að fara og svo hvernig gengur ef þú lætur verða af því að fara.

Háfjallakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.

 


Svarið við þessari fyrirspurn birtist löngu eftir að hún var send og sama dag kom bréf frá konunni sem sendi fyrirspurnina. Það er gaman að birta bréfið frá henni og reynslu hennar af því að dvelja í mikilli hæð á meðgöngu:

 

Sæl Anna og takk fyrir svarið við fyrirspurn minni um háfjallaveiki.

Ég er nýkomin heim úr ferðalaginu og allt gekk vel. Ég var afar efins með það hvort ég ætti að fara og spurði kvensjúkdómalækninn minn út í þetta og hann sagði að það væri allt í lagi að ferðast í svona mikla hæð svo framalega sem meðgangan gengi vel, þ.e. engar blæðingar. Hann sagði að fylgjan myndi aðlagast breyttum aðstæðum. Hann minntist líka á að almenn ráð við háfjallaveiki eru að drekka ekki áfengi, hvílast vel í byrjun, drekka vel af vökva og passa að borða ekki þungan mat eins og kjöt. Eins sagði hann að best væri ef maður fetaði sig hægt og bítandi upp í þessa miklu hæð. Ég var hins vegar búin að bóka flugið til La Paz í Bólivíu áður en ég varð ófrísk þannig að við flugum beint í 4000m. Ég var sem sagt í tíu daga í ca. 3600-4000 m hæð. En svo lækkaði ég mig niður í 2500-3200m í nokkra daga og endaði svo í Lima og NY sem eru borgir við sjávarmál. Í upphafi fann ég lítið fyrir hæðinni enda hvíldum við okkur alveg fyrstu tvo dagana (vinkona mín sem er búsett í svona mikilli hæð mælti með því) en svona viku eftir að ég kom varð ég frekar slöpp, þreytt, rosalega kalt og mér leið mjög illa. En þá hætti ég að borða kjöt, fékk mér súpur og drakk mikið af vökva og mér leið strax betur. Allan tímann sem við vorum í svona mikilli hæð, þ.e. þessa tíu daga þá urðum við mjög móð við að labba. Í rauninni aðlagast maður hæðinni ekkert á svona stuttum tíma, heldur verður maður bara að passa sig á því að fara v el með sig.Þetta á við alla, bæði ófrískar konur og aðra. Ég tók sem sagt ekki eftir því að ég ætti erfiðara með þessar aðstæður en aðrir. Kærastinn minn átti erfiðara með hæðina ef eitthvað var. Læknirinn minn sagði líka að stórir ættu erfiðara með að aðlagast mikilli hæð (kærastinn minn er 110kg og 185 cm) en hann útskýrði það ekkert nánar. Þá sem ég spurði út í háfjallaveiki sögðust einmitt hafa orðið veikir talsvert löngu eftir að þeir komu í þessa hæð, þ.e. svona 7-10 dögum eftir. Einhverjir duttu líka í þá gildru að mæta í svona mikla hæð og líða bara rosa vel og fara þá strax og fá sér svaka kjötmáltíð og áfengi sem leiddi til þess að þeir urðu mjög lasnir. En allt gekk vel og samkvæmt minni reynslu ætti að vera í lagi fyrir ófrískar konur að fara í mikla hæð svo framalega sem meðgangan hefur gengið vel.

Með bestu kveðju.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.