Hægðir hjá brjóstmylkingi

29.06.2005

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég á tæplega 8 vikna stelpu sem nærist eingöngu á brjóstamjólk. Frá fæðingu hafði hún hægðir daglega, jafnvel nokkrum sinnum á dag en hægðirnar voru alltaf mjög fljótandi.  Fyrir 2 vikum breyttist þetta þó all snögglega og allt í einu liðu 6 dagar án þess að hún hefði hægðir.
Þegar hún loksins hafði hægðir voru þær ekki eins fljótandi og áður.  Enn líða svo núna alltaf nokkrir dagar á milli hægða.  Nú hef ég lesið að það sé eðlilegt hægðamynstur hjá brjóstmylkingum að hafa annað hvort hægðir oft á dag eða einu sinni í viku og það sé óþarfi að hafa áhyggjur. Spurningin mín er hins vegar þessi.  Hversu margir dagar þurfa að líða milli hægða til að ég þurfi að fara að láta tékka á þessu.  Sem sagt, hver er hámarks fjöldi daga sem líða má milli hægða hjá brjóstmylkingi?

Með fyrirfram þökk, mjólkurmamma.

.............................................................................


Hægðatregða er nánast óþekkt á meðal barna, sem eingöngu nærast á brjóstamjólk. Þess vegna þarftu ekki að hafa stórar áhyggjur af strjálum hægðum dóttur þinnar ef hún er ánægð og þyngist eðlilega. Hins vegar verður mjög oft breyting á hægðalosunarmynstrinu hjá brjóstmylkingi, einmitt um sex vikna aldur barnsins (eins og gerðist hjá dóttur þinni), í þá veru, að hægðir koma sjaldnar en áður. Það er ekki talað um neinar tímatakmarkanir í því sambandi heldur þarf að fylgjast með líðan barnsins, hvort því virðist líða vel s.s. er vært, ánægt og/eða sefur eðlilega. Einnig þarf að fylgjast með, hvort barnið þyngist eðlilega, sem er gert í ungbarnaverndinni. Yfirleitt er auðsótt mál að fá að koma með barn í aukavigtun á heilsugæslustöðina ef mamman hefur einhverjar áhyggjur af þyngdinni. Mér finnst líka eðlilegt, að þú ræðir þetta mál við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni. Það getur líka örvað þarmahreyfingarnar hjá barninu ef þú lætur hana liggja á maganum stund og stund, þegar hún er vakandi og þú ert hjá henni.

Gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. júní 2005.