Spurt og svarað

27. júlí 2005

Hægðir og uppköst hjá ungbarni

Sæl!

Þakka ykkur fyrir mjög góðan vef, þið hafið aldeilis bjargað mér oft á tíðum. Ég er með 2½ mánaða gamlan strák sem er á brjósti og mig langar að spyrjast fyrir um tvö atriði sem eru að valda mér áhyggjum: 

  1. Er eðlilegt að hægðir hjá börnum á brjósti séu fljótandi og líkar niðurgangi?  Hæðir hjá syni mínum eru alltaf mjög linar og það fer allt útum allt þegar hann hefur hægðir. Þær eru aldrei kornóttar líkt og ég hef lesið að sé eðlilegt.
  2. Er eðlilegt að ungbörn kasti upp allan daginn, jafnvel þótt langt sé liðið frá síðustu brjóstagjöf?  Sonur minn kastar mjög mikið upp, kastar næstum alltaf upp þegar ég læt hann ropa eftir gjöf og jafnvel mjög mikið. Hann kastar upp stöðugt allan daginn og einnig á næturnar, þó það sé minna en á daginn.

Kær kveðja, glæný mamma.

..................................................................................

Sæl og blessuð glænýja mamma.

Þakka þér fyrir hrósið. Það er mjög gott hvað mæður eru duglegar að skrifa og leita svara.

En að þínum vandamálum.

  1. Já það er algerlega eðlilegt að hægðir brjóstabarna séu fljótandi og inn á milli geta þær verið vatnskenndar með hægðaslettum í. Kornóttar eru hægðir hjá brjóstabörnum alltaf vegna ákveðinna þátta í meltingunni hjá þeim en það getur verið misgott að sjá þau (kornin). Þetta geta verið smáyrjur í hægðunum sem ekki eru neitt áberandi en þú sérð þær ef þú skoðar vandlega. Þú þarft bara að skoða einu sinni til að sannfærast um að þær eru þarna. Svo geturðu verið alveg róleg þær eru þarna alltaf.
  2. Það er erfiðara að svara þessu með uppköstin. Það er gerður skýr greinarmunur á gubbi og uppköstum. Gubb hjá ungbörnum er mjög algengt og ekkert óeðlilegt. Börn eru mismiklir gubbarar. Sum gubba eiginlega aldrei á meðan önnur gubba í tengslum við flestar gjafir og af og til allan daginn. Það virðist lítið mega hreyfa þau og þau virðast yfirfylla sig í hverri gjöf þ.e.a.s. drekka meira en meltingarfærin geta tekið við og gubba því umframmagninu. Svona gubb þarf ekki að trufla börn neitt. Þau þrífast eðlilega og líður afskaplega vel en þetta er álag á þvottavélina. Uppköst eru annar hlutur. Þá kúgast börn og spýjan stendur út úr þeim í bunu oft talsvert kraftmikilli. Þetta eru meira eins og uppköst fullorðinna. Svona uppköstum fylgir vanlíðan og þau tengjast yfirleitt einhverjum veikindum. Þú talar um uppköst en ég held að þú sért að meina gubb. Prófaðu að láta barnið ropa snemma í gjöf. Taktu tímann á honum. Þegar hann er búinn að drekka í 1-2 mínútur tekurðu hann af og lætur hann ropa.Svo heldur gjöfin áfram. Ástandið getur skánað eitthvað pínulítið við þetta en það lagast ekkert. Ef þig grunar að um raunveruleg uppköst er að ræða myndi ég ráðleggja þér að fá barnalæknisskoðun.

Með bestu ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.