Hættur að sofa vel á nóttunni

16.10.2006

Nú er það þannig hjá okkur að strákurinn minn sem er fæddur 17. júní á þessu ári er bara allt í einu hættur að sofa vel á nóttunni. Hann sofnar á kvöldin og sefur í svona 1-3 klst en svo er hann að vakna alla nóttina og vill hanga á mér og ef hann hefur ekki brjóstið þá er bara öskrað og hann sefur ekkert. Hvað get ég gert? Ég er ekki tilbúin að láta hann bara gráta eins og margir segja mér að gera en hvernig get ég vanið hann á að sofa lengur í einu á nóttunni og hvernig get ég vanið hann af því að vera alltaf á brjóstinu. Hann hefur mikla sogþörf en vill ekki snuð. Hann notar mig sem snuð, hann hangir á brjóstinu en er samt farin að skila mjólkinni bara afrur, hann sýgur en mjólkin kemur bara útum munnvikið. Hann er ekki svangur.


Sæl og blessuð.

Ég er sammála um að þetta hljómar ekki eins og hann sé svangur. En samkvæmt gömlu reglunni „Ef þú ert í vafa gefðu barninu þá að drekka“. Þá skaltu byrja á því að tryggja það. Teldu saman gjafafjölda yfir sólarhringinn og ef hann er á milli 8 og 12 þá ætti það að nægja. Tryggðu líka að þær séu nógu langar til að hann sé sáttur í lokin. Og að þær séu nógu góðar með því að láta fyrra brjóstið vera mestan hluta gjafarinnar og seinna brjóstið (ef það er notað) bara stutt í lokin. Síðan getur verið gott að reyna að gefa extra vel fyrir nóttina. Fleiri, lengri og betri gjafir að kvöldinu og sjá hvort það dugi til að breyta mynstrinu hans. En eins og þú lýsir vandamálinu þá gæti verið um aðskilnaðarkvíða að ræða. Hann er svo hræddur um að missa þig að hann reynir að halda í þig með því eina vopni sem hann hefur. Svona hegðun byrjar stundum í tengslum við breytingar á háttum fjölskyldunnar t.d. byrjun á pössun, flutninga, meiri fjarveru, flutningur í eigið rúm. Þannig er það að hann heldur áfram að sjúga þótt hann sé ekki svangur þvi að á meðan hann er með vörtuna í munninum þá veit hann að þú ferð ekkert á meðan. Ef um eitthvað slíkt er að ræða reyndu þá að bæta ástandið eins og þú getur og fyrst og fremst gefa honum meira af nærveru þinni.

Vona að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. október 2006.