Spurt og svarað

25. maí 2005

Hársnyrting ungbarna

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir frábæra síðu. Ég kíki reglulega á hana og finnst hún algjör snilld! Mig langaði bara að fá faglegt álit ykkar á hársnyrtingum ungbarna.  Ég á eina litla stelpu sem er hálfs árs og hárið hennar, það litla sem eftir er, er eins og fiður.  Svo sem ekkert að því, bara sætt.  Mig langar svo að snoða hana því ég hef heyrt að hárið verði svo fínt eftir það.  Hafið þið einhverja vitneskju um það hvort eitthvað sé til í því?  Ég hef heyrt að þau þurfa að vera um 6 mánaða þegar þau verða snoðuð. Vitið þið eitthvað um það? Mér finnst höfuðið eitthvað svo lítið til að fá rakvél á það, en langar engu að síður að snoða hana. Ég vona að þið getið hjálpað mér eitthvað með þetta:-)

.........................................................................

Sæl og takk fyrir spurninguna!

Ég verð nú hreinlega að játa að ég veit ekki hvenær er best að láta klippa svona lítil börn í fyrsta skiptið. En oft hefur maður nú heyrt að hárið verði þykkara og ræktanlegra ef það er klippt alveg stutt. Mjög misjafnt er hversu mikið hár börn fæðast með og hversu vel þau halda því. Sum missa hárið smátt og smátt á meðan önnur halda sínu hári og það þéttist og þykknar. Þetta er mjög einstaklingsbundið og mismunandi og því er erfitt að gefa út á hvaða aldri sé best að byrja að klippa þau. Eflaust væri best fyrir þig að snöggklippa litlu dömuna þannig að hárið sem kemur verði þétt og fallegt. Ef þú hefur áhuga á frekari upplýsingum hvet ég þig til að hafa samband viðhársnyrtistofuna Stubba-Lubba en það er stofa sem sérhæfir sig í að sinna börnum á öllum aldri.

Kær kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.