Spurt og svarað

08. október 2005

Herra óþolinmóður ;-)

Sælar og takk fyrir stórgóðan vef.

Þannig er mál hjá mér að ég á 10 vikna gamlan son sem er kröftugur en jafnframt óþolinmóður á brjóstinu. Síðast liðnar vikur drekkur hann nánast aldrei lengur en í 5 mínútur og stundum styttra en vill þá skipta um brjóst því hann virðist ekki vilja hafa fyrir hlutunum og engin leið þegar þannig liggur á honum að fá hann til að vera lengur á sama brjósti. Hann þyngist eðlilega, 130-180 gr á viku, svo ég er að reyna að hafa ekki áhyggjur af því að hann fái ekki nóga næringu en mér finnst ég sífellt vera í kapphlaupi við að ná mjólkinni upp. Ég mjólka vel og er lausmjólka en það koma alltaf tímabil sem mér finnst að ég hafi ekki næga „lausa“ mjólk handa herra óþolinmóðum ;-) Ég set hann þá oft á brjóst og finnst mér ég þurfa að hjálpa við að ná upp mjólkinni með því að mjólka mig í lok gjafa, drekka hitt og þetta nudda brjóstin á meðan hann drekkur því hann grætur sárt eins og hann fái ekki næga mjólk. Eftir fáa daga af svona pexi gengur allt eins og í sögu og mjólkin sprautast upp í hann og annað brjóstið dugar í gjöf. En þetta gengur svona bara um tíma og svo fer að koma tímabil sem mér finnst mjólkin minnka aftur. Þetta er svona hringrás. Ég væri mjög glöð er það væru til einhver ráð til að fá jafnvægi í þetta þannig að við þyrftum ekki að vera að glíma við erfiðu tímabilin á milli. Pilturinn drekkur u.þ.b. 7 sinnum á sólahring. Er  um fimm kíló og hefur haldið vel kúrfu. Hann notar snuð en við reynum að stilla því í hóf og nota það bara þegar hann fer að sofa og til að róa hann þegar mikil óværð er til staðar. Ég er mjög forvitin að vita hvað þetta ung börn geta sogið mikla mjólk á mínútu. Ég á alltaf svo bágt með að trúa því að hann sé búin að fá nóg því hann sýgur stutt og ælir mikið. Þarf ég að hafa áhyggjur af að hann fái ekki næga eftirmjólk? Minnkar mjólkin út af því hve stuttan tíma hann sýgur? Eða er hann að stækka skammtinn? Getur verið að ég þurfi að lengja tímann á milli gjafa svo hann sé svengri þegar hann drekkur?

Með fyrirfram þökk og von um góð ráð, mamman.

...................................................................


Sæl og blessuð mamma!

Þegar börn hafa náð ákveðnum aldri og þroskað tækni sína við sogið nægilega eru þau fær um drekka fylli sína á ótrúlega stuttum tíma. Það er algengt að þau ljúki sér af á örfáum mínútum. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af að hann fái ekki nægilega eftirmjólk. Ef barnið er ánægt eftir gjafir þroskast vel og sefur eðlilega geturðu verið alveg róleg. Þau geta jafnvel þyngst hratt og hægt til skipist án þess að það sé nokkuð óeðlilegt. Þér finnst eins og hann virðist ekki vilja hafa fyrir hlutunum en hann ÞARF ekkert að hafa fyrir þeim. Það er líka eðlilegt að kröfurnar hjá honum séu svolítið í sveiflum. Þú átt heldur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því. Framleiðslan fylgir honum eftir án þess að þú þurfir að hafa mikið fyrir því. Þegar næringarþörfin er mikil hjá honum þá biður hann oftar um að drekka og drekkur lengur og biður jafnvel oftar um brjóstaskiptingu. Þegar þörfin minnkar aftur hjá honum þá biður hann sjaldnar um. Öll börn fara í gegnum svona sveiflur þótt þær séu misáberandi. Þegar þér finnst erfitt tímabil standa yfir getur verið gott fyrir þig að hafa í huga að gera gjafirnar notalegri. Vera einhvers staðar í friði hafa hlýtt og hljótt og róandi umhverfi. Gefðu þér góðan tíma og reyndu að minnka álagið í þínu umhverfi (heimilisverk, félagslíf o.s.frv.). Það sem þér finnst vera óþolinmæði á brjóstinu getur haft með þroska hans að gera. Nú er svo margt í umhverfinu sem vekur áhuga hans að jafnvel í gjöfunum þarf hann að vera að kanna ýmsa hluti. Það gæti hjálpað að reyna að draga úr spennandi eða nýjum hlutum úr umhverfinu í gjöfinni. Nei þú átt ekki að reyna að lengja tímann milli gjafa. Það gæti gert hann ergilegri og gjafirnar erfiðari. Vona að þessi ráð hjálpi. Haltu áfram þínu góða starfi.    

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.