Spurt og svarað

29. júlí 2005

Hitt og þetta hjá ákveðinni 7 mánaða gellu

Sæl!

Stelpan mín er 7 mánaða og er á brjósti. Þegar hún varð 6 mánaða þá byrjaði ég að gefa henni graut á kvöldin fyrir svefninn og svo brjóstið alltaf á eftir. Núna er hún byrjuð að fá ávöxt í kaffinu og grænmeti í hádeginu og innan skamms byrja ég svo á kjöti. Málið er að mér er sagt að vanalega þegar máltíðir koma inn er sleppt brjóstinu á eftir og svoleiðis fer svo brjóstagjöfin minnkandi. Mín kona er bara svo hrikaleg brjóstakelling að svoleiðis kemur ekki til greina! Eftir hverja máltíð drekkur hún bæði brjóstin af bestu lyst! Mér finnst þetta allt í lagi en er svona að spá í því hvort þetta sé í lagi. Mér finnst hún fyrir vikið auðvitað borða mjög lítið af matnum sem ég gef henni því hún er pottþétt að spara sig fyrir brjóstin. Ég bý úti og þegar við fórum í 6 mánaða skoðun þá ýtti læknirinn svakalega á eftir mér með matinn. Ég hafði bara byrjað svona rólega því hún þyngist alltaf yfir 200 gr á viku og við vorum báðar mjög ánægðar.Núna finnst mér hún eiginlega hafa grennst.

Jæja svo er það vandamál númer 2. Hún hætti bara upp úr þurru að vilja annað brjóstið. Vill bara alls ekki sjá það. Hvaða stælar gætu það verið? Heldur þú að eitthvað sé að brjóstinu eða ákvað hún bara að hitt væri uppáhaldið? Framleiðir líkaminn eins og tvö brjóst þegar barnið drekkur bara úr einu brjósti? Hvað á ég að gera til að laga þetta? Það skiptir engu máli þó ég leggi hana fyrst á það brjóst, hún neitar bara kurteislega.

Með fyrirfram þökk. Kveðja úr sólinni, mamman og 7 mánaða ofurskutlan.

....................................................................

Sæl og blessuð móðir.

Já. Þau geta nú verið ansi ákveðin ef þau ætla sér það. Það er svolítið misjafnt hvernig mæður byrja að kynna fasta fæðu fyrir börnum. Margar gera það þannig að þegar máltíð kemur inn þá dettur brjóstagjöfin i það skiptið niður. Þannig er afvenjun brjóstagjafarinnar byrjuð um leið. Þá er verið að gera tvo hluti í einu: Kenna barninu að borða og venja það af brjósti. Ef barnið er þyrst eftir matinn fær það vatn eða safa. Þær mæður sem ætla að kynna fasta fæðu en halda brjóstagjöfinni gera svona eins og þú ert að gera. Það er allt í lagi aðferð en þá er ekki hægt að ætlast til að barnið borði mikið. Það er bara að læra að borða. Síðan kemur afvenjun af brjósti seinna þegar barnið er tilbúnara en þitt barn virðist vera ef hún er svona mikil brjóstakelling.

Varðandi seinna vandamálið þá er það snúnara. Maður getur stundum aldrei fundið út af hverju barn hafnar öðru brjóstinu þótt töluverðum tíma sé eytt í að rannsaka það. Stundum finnast ástæður og þær gera verið fjölmargar. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af framleiðslunni. Hitt brjóstið tekur sig bara til og svarar eftirspurn barnsins með því að framleiða helmingi meira og hefur ekkert fyrir því. Þú getur látið hana taka bæði brjóstin ef þú vilt. En það þarf til bæði vinnu og sniðugheit. Manni finnst kannski ljótt að vera að plata svona lítil börn en ef það er þeim fyrir bestu þá er það jú réttlætanlegt. Bjóddu henni verra brjóstið þegar hún er svo syfjuð að hún veit ekkert hvað hún er að gera. Það má vera um miðja nótt eða í lok gjafar af hinu brjóstinu. Haltu henni eins og þú ætlir að fara að gefa betra brjóstið en teygðu svo hitt brjóstið til hennar. Liggðu með hana í rúminu eins og venjulega en hallaðu þér yfir hana og bjóddu hitt brjóstið. Þau eru mjög næm fyrir því þegar verið er að reyna að plata þau þannig að þú verður að vera kæn, fara varlega og tala um eitthvað allt annað á meðan. Hún tekur það væntanlega mjög stutt til að byrja með en haltu áfram að fá hana til að taka oft og þar kemur að að hún verður sátt.

Vona að ráðin dugi eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.