Hnúður í brjósti hjá 6 mánaða

24.01.2007

Sælar!

Dóttir mín sem er 6½ mánaða hefur hnúða bak við geirvörturnar, annar um hálfur cm í þvermál, hinn minni. Það er enginn roði í kring né er hún aum. Það er hugsanlega hægt að sjá stærri hnúðinn ef vel er að gáð en þar sem ég veit af honum þykir mér erfitt að dæma um það. Ekki er þó mikið að sjá því ég t.d. tók ekki eftir þessu fyrr en maðurinn minn benti mér á þetta en hann tók eftir þessu fyrir nokkrum vikum síðan. Ég vil þó taka það fram að við sáum þá ekki, heldur fundu fingurnir þá. Ég spurði lækninn í sex mánaða skoðuninni um þetta og sagði hann að þetta stafaði líklegast af hormónaframleiðslunni í mér (hún fær 4-5 brjóstagjafir á sólarhring). Ég myndi gjarnan vilja fá ykkar álit einnig, sérstaklega vegna þess að við annarri fyrirspurn hér á vefnum sögðuð þið að hnúðarnir hyrfu venjulega um tveggja vikna aldurinn en eins og kemur fram hér að ofan er dóttir mín töluvert eldri en það.

Þakka ykkur svo fyrir frábæran vef.Komdu sæl, og takk fyrir að leita til okkar!


Því miður get ég ekki svarað þessu á annan hátt en ég gerði í fyrri fyrirspurn og þú hefur rætt þetta við lækninn í sex mánaða skoðuninni. Hann virðist ekki hafa áhyggjur af þessu en það er rétt að fylgjast áfram með þessu og taka eftir hvort þetta hjaðnar ekki með tímanum, sérstaklega eftir að barnið hættir á brjósti. Ef þetta fer að verða aumt viðkomu eða roði kemur í ljós í húðinni ættirðu að leita aftur til læknisins til endurmats.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2007.