Spurt og svarað

14. júní 2007

Hunang í matvælum

Hæ, hæ! Takk fyrir FRÁBÆRAN vef :)

Nú veit ég að það getur verið stórvarasamt að gefa börnum undir 1 árs aldri hunang. Mig langar aftur á móti til að vita hvort það eigi einnig við um eldaðar matvörur sem innihalda eitthvað hunang. Var um daginn að skoða utan á bakaða vöru í heilsubúð og hún innihélt smá hunang. Er óhætt að gefa slíkt þar sem varan hefur verið bökuð? Mér finnst það mega vekja meiri athygli á þessari hættu með hunangið.  Hef hitt þó nokkra sem hafa ekki hugmynd um þetta og jafnvel setja hunang á snuð barnanna eftir ráðum sem þær fá hjá mæðrum sínum.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Já það er rétt því í hunangi getur einstaka sinnum verið baktería (Clostridium Botulinum) sem myndar eiturefni í þörmum ungbarna og getur valdið alvarlegum veikindum hjá barninu (infant botulism). Eftir eins árs aldurinn eru þarmarnir búnir að þroskast það mikið að bakterían getur ekki vaxið þar lengur. Engin leið er að fjarlægja þessa tegund af bakteríu við framleiðslu á hunangi. Þó svo að í lagi sé að gefa börnum hunang eftir eins árs aldurinn, ber að hafa í huga að hunang er ein tegund sykurs og því ekki æskilegt að gefa börnum mikið af því frekar en af öðrum sykurríkum matvælum til að tryggja að barnið fái öll næringarefni sem það þarf frá fjölbreyttu fæði (fæst ekki ef sykur mettar magann) og til að draga úr hættu á tannskemmdum. Bakterían myndar svokallaða spora sem framleiða eitrið sem er svo hættulegt. Til þess að drepa bakteríuna er nauðsynlegt að sjóða matvæli við 120 °C í a.m.k. 30 mínútur.  Auðveldara er að drepa eitrið því það þarf ekki að sjóða það nema við 80 °C í 30 mínútur til að drepa það.  Því tel ég ekki heppilegt að gefa barni undir 1 árs aldri neina matvöru sem inniheldur hunang nema það sé eldað eins og talað er um hér að ofan.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.