Spurt og svarað

28. ágúst 2005

Hundar og börn

Sælar fróðu konur.
Þannig er mál með vexti að ég á að fara að eiga þriðja barnið mitt á næstunni og allt í góðu með það.  En nú er ég að velta því  fyrir mér þar sem við erum með yndislegan fjölskylduvin þ.e hund í stærri kantinum hvort ég eigi að haga kynnum hans og nýfædda barnsins á einhvern ákveðinn hátt.  Ég hef engar áhyggjur af því að hann meiði barnið en er bara að spá í hvort það borgi sig að halda barninu alveg frá dýrinu til að byrja með. En best væri auðvitað fyrir hundinn að kynnast barninu sem fyrst.
Dýrin eru jú svo forvitin og vilja vita hvað er á seyði, hann er til dæmis alltaf að þefa af barnadótinu sem safnast jafnt inn á heimilið og er mjög forvitinn um þetta allt saman.
 En að sjálfsögðu vil ég gera það sem er best fyrir barnið mitt ;-)

 kær kveðja og takk fyrir upplýsandi vef.

.....................................................................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Þú ert nú eiginlega búin að svara þessu sjálf.  Ég fann engar rannsóknir í gagnasöfnunum um þetta þannig að ég leit í nokkrar hundabækur til að sjá hvað er ráðlagt í þeim. 

Það er tekið fram að þú þurfir að þekkja hundinn þinn vel, veita því athygli hvernig hann er innan um önnur börn.  Er hann rólegur eða stendur honum stuggur af þeim?                                 Flestir hundar eru forvitnir eins og þú segir, þefa af öllu barnadótinu og skoða hvað er að gerast.  Þeir aðlaga sig fljótt að þessum nýja einstaklingi sem kemur inn í fjölskylduna.  Hundurinn getur skaðað barnið þó hann ætli sér það ekki.  Hann getur verið að hoppa upp til að fagna eiganda sínum eða hlaupa og ærslast.  Ef hundurinn þinn hefur brugðist illa við fólki á einhvern hátt er ástæða til að gera ítarlegar varúðarráðstafanir og vakta viðbrögð hans gagnvart barninu.  Ef hundurinn bregst illa við ef einhver nálgast matarskálina hans þegar hann er að borða eða ef einhver snertir beinið hans er sérstaklega ástæða til að gæta varúðar þegar barnið verður hreyfanlegra.

Bækurnar ráðleggja fólki að fyrst og fremst að huga að framkomu hundsins gagnvart börnum yfirleitt.  Það skiptir miklu máli að hundurinn sé þegar vel agaður og hlýðinn.  Ekki byrja að reyna að þjálfa hann eftir að barnið er komið, það er eitthvað sem þarf að vera búið að gera.  Sumar bækur mæla með að þú venjir hundinn við barnagrát, hjal eða önnur barnahljóð, látir hann sitja kyrran meðan þú ert að gera ýmsa hluti í kringum barnahúsgögnin og jafnvel fáir þér dúkku sem þú heldur á, ruggar og gengur um með.  

Þegar þú kemur með barnið heim mæla sumar bækur með því að fyrst sé farið með eitthvað frá barninu (t.d. barnateppi) og láta hundinn þefa af því og venjast lyktinni.  Þegar þú kemur með barnið heim er mælt með að þú heilsir hundinum fyrst án þess að vera með barnið í fanginu, hundurinn er vonandi glaður að sjá þig og er kannski svolítið æstur.  Þegar allt hefur róast ættir þú að leyfa hundinum að þefa af barninu.  Mælt er með að annað foreldrið sé hjá barninu og hitt hjá hundinum.  Guðrún Pétursdóttir mælir með því í bókinni Hundalíf að hundinum sé leyft að þefa af barninu og skoða það en aldrei að bægja honum frá því.  Ef hann sýnir einhverja árásargirni ráðleggur hún fólki að losa sig strax við hundinn, öryggi barnsins vegna.  Hundurinn er yfirleitt eins og eitt af börnunum í fjölskyldunni og því þarf auðvitað að passa upp á að hann fái líka athygli eins og allir hinir og ef móðir barnsins hefur verið mikið með hann fyrir fæðinguna er auðvitað mikilvægt að hún gefi sér einnig tíma til þess að sinna hundinum og þau eigi jafnvel líka sinn tíma saman. 
Annars gengur þetta líka bara mikið út á að sýna heilbrigða skynsemi og miðað við það sem þú segir í byrjun virðist mér sem þú sért á réttri leið!  ;>

Gangi þér vel!

Hundakveðjur
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
26. ágúst 2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.