Hvað á barnið mitt að fá þegar ég fer að vinna?

14.12.2005

Nú hef ég séð að það sé ráðlagt að börn kynnist ekki fastri fæðu fyrr en 6 mánaða, svo nú spyr ég: Hvað á barnið mitt að fá þegar ég fer að vinna frá því þar sem fæðingarorlof er einungis 6 mánuðir? Ég vil helst ekki að hún fái pela. Er hægt að gefa henni stoðmjólk úr stútglasi og hvenær er þá ráðlagt að ég fari að venja hana á það? Tekið skal fram að ég verð aðeins að vinna u.þ.b. 6 daga í mánuði og verð komin heim um kl. 16. Ég vil nefnilega hafa hana eingöngu á brjósti eins lengi og ég mögulega get. Er hætta á að mjólkin minnki við að gefa henni ekkert þessa daga en vinnudagurinn minn er frá 05.30 til 16? Er kannski ráðlagt að ég pumpi brjóstin einu sinni yfir daginn ef ég má vera að?

Kveðja ungamamma.

................................................................................

Sæl og blessuð ungamamma.

Ef þú vilt að barnið þitt verði eingöngu á brjóstamjólk lengur þá þarftu að mjólka þig og eiga handa henni á vinnudögunum. Þú gætir þurft að eiga 3-4 skammta (eftir því hvaða hún er að drekka ört). Ef þú vilt að hún fari að byrja á föstu fæði um svipað leyti og þú byrjar að vinna þá kemur það kannski ekki vinnunni svo mikið við. Byrjunin er kannski 2-3 teskeiðar af stöppuðu grænmeti sem tekur 5 mínútur að gefa henni og má gefa á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Í vinnunni verðurðu að pumpa eða mjólka brjóstin á einhvern hátt 1-3 sinnum. Það skiptir máli upp á að viðhalda framleiðslunni og það skiptir líka máli upp á að þér fari ekki að líða illa í brjóstunum eða að þau fari að leka.

Vona að þetta hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. desember 2005.