Er óhætt að nota EGF BIOeffectTM húðdropa á meðgöngu?

13.07.2010

Mig langar að athuga hvort þið hafið upplýsingar um þá hvort óléttum konum sé ekki óhætt að nota þessa nýju spennandi húðdropa frá Sif Cosmetics.


Góðan dag!

Við sendum fyrirspurn þína til Sif Cosmetics og fengum svar frá Hilmari Viðarssyni, sérfræðingi (PhD, MSc) hjá Sif Cosmetics:

„Svarið við fyrirspurn þinni er einfaldlega það að sé notkunarleiðbeiningunum fylgt á það að vera algerlega óhætt að nota EGF BIOeffectTM húðdropa á meðgöngu. Þar sem við hjá Sif Cosmetics höfum, enn sem komið er, ekki gert neinar sértækar rannsóknir á áhrifum húðdropanna á þá starfsemi líkamans sem snýr að meðgöngu, þá byggjast ályktanir okkar á þeirri þekkingu sem sérfræðingar okkar hafa um innihaldsefni dropanna. Auk þess eru húðdroparnir unnir í nánu samstarfi við ýmsa sérfræðinga á viðkomandi sviðum, þar á meðal húðlækna og þar af leiðandi eru droparnir þróaðir undir miklu gæðaeftirliti. Það sem einna helst einkennir EGF BIOeffectTM húðdropana er hin tiltölulega einfalda samsetning dropanna. Þeir eru glærir og lyktarlausir og án nokkurra rotvarnarefna eða annarra óþarfa aukaefna. Húðdroparnir innihalda auðvitað frumuvakann EGF (Epidermal Growth Factor), sem er virka efni dropanna og hefur hann  m.a. þau áhrif á frumur húðarinnar að hann spornar gegn náttúrulegu hrörnunarferli hennar. Eitt af megin hlutverkum EGF er að örva frumuskiptingar (/nýmyndun) húðfrumna og þar með framleiðslu kollagens og elastins sem viðheldur stinnleika húðarinnar. Frumuvakinn EGF er viðurkenndur vaxtarþáttur í snyrtivöruheiminum og víða notaður í húðsnyrtivörum í dag. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á það að EGF í húðsnyrtivörum hafi óæskileg áhrif á konur á meðgöngu eða fóstrin sem þær ganga með. Þar að auki má geta þess að m.a. Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA = Food and Drug Administration) leyfir notkun vaxtarþátta í snyrtivörum þar sem þeir virka staðbundið á þær frumur og þau svæði í húðinni sem þeir eru bornir á, en berast ekki með blóðrásinni til annarra staða í líkamanum.

Að lokum viljum við beina þeim tilmælum til kaupenda að þeir fylgi notkunarleiðbeiningum sem fylgja glasinu og að ef eitthvað kemur uppá eða ef einhverjar spurningar vakna að hafa þá samband við lækni, ljósmóður eða sérfræðinga hjá Sif Cosmetics.“

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. júlí 2010.