Spurt og svarað

27. október 2006

Hvað er rétt?

Ég á 3ja mánaða stelpu sem gengur alveg rosalega vel með.  Hún sefur mjög vel, en foreldrar mínir eru alltaf að segja við mig að hún megi ekki sofa mikið á bakinu því þá fær hún flatt höfuð. ég reyni eins og ég get að vera að snúa henni á hliðina og setja sængina við bakið á henni, en hún er alltaf komin á bakið.  Hún er þó alveg með höfuðið í hliðarstellingu.  Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Svo er annað... lítil börn á þessum aldri vilja oft standa í lappirnar en þá er sagt við mig PASSAÐU þig að láta hena ekki standa mikið, þá verður hún hjólbeinótt?  Heyra ungabörn mun betur en við?  Er hættulegt að hafa þau þar sem t.d er talað hátt upp við hana?

Mig langaði að fá svör við þessu frá fagmanneskju, þar sem ALLTAF er verið að segja þetta við mig, en vil taka fram að mér líður voða vel með hana og ekki að sjá annað en að henni líði vel og þroskist eðlilega!:)
 
Komdu sæl og til hamingju með stelpuna þína.
 
Þú skalt bara halda áfram að vera ánægð með stelpuna þína, mér heyrist hún einmitt vera hraust og eðlileg lítil stelpa.  Hér á síðunni undir slysavarnir er pistill sem heitir "Ungbarn lagt til svefns" en þar er einmitt talað um það að best sé að börn sofi á bakinu.  Eins og þú bendir á í fyrirspurninni þinni þá snýr hún höfðinu þannig að líkurnar á því að hún fái flatt höfuð eru engar.  Höfuð ungbarna er mjög "mjúkt" og getur aflagast ef það liggur alltaf t.d. á sömu hliðinni en það jafnar sig aftur.  Líkurnar á þessu eru samt meiri ef hún sefur á hliðinni það sem hún getur þá ekki hreyft höfuðið eins mikið og ef hún er á bakinu. 
Varðandi fæturna þá eru beinin í þeim líka mjúk en barn á þessum aldri á að geta staðið í fæturna í nokkrar sekúntur þegar haldið er á því, börnin verða stolt af því að geta þetta, finnst það gaman og vilja prófa aftur og aftur.  Það er allt í lagi og alveg eðlilegt.  Þegar barnið er orðið þreytt þá hættir það og þá ættu hinir fullorðnu að hætta líka að reyna að láta barnið standa.
Heyrn ungbarna er vissulega viðkvæm og ætti að passa uppá að hafa þau ekki í miklum hávaða eins og á tónleikum eða slíku nema með eyrnahlífar.  Börn eru líka viðkvæm fyrir hávaða sérstaklega ef þau eru ekki vön honum.  Ef barn er vant rólegheitum og svo kemur einhver sem talar hátt og er með læti getur það hrætt barnið og valdið óöryggi þó heyrnin sé ekki í hættu.  Börn þola alveg venjulegt tal, jafnvel þó fólki liggi hátt rómur.
 
Það er alltaf nóg af fólki sem vill gefa góð ráð og leiðbeina nýbökuðum foreldrum.  Best er að taka það sem manni finnst skynsamlegast sjálfum, það besta sem maður heyrir, og fara eftir því.  Leiðbeiningar um meðhöndlun ungbarna hafa breyst mikið síðustu 20-30 árin þannig að það sem var talið best þegar þið voruð börn, þykir kannski alls ekki gott núna.  Þekkingunni fleygir fram, sem betur fer.
 
Vona að þessi svör hvetji þig áfram í að gera það sem þér þykir rétt.
 
Gangi ykkur vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 
27.10.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.