Hve oft í bað?

04.12.2007

Hæ hæ og takk fyrir frábærann vef!

Ég á lítinn gutta sem er 8 mánaða, þegar hann var ný fæddur sagði ljósmóðirin mér að það væri rosalega gott að koma á smá rútínu á kvöldin og ég gerði það, inn í þessari rútínu var að fara í bað eftir kvöldmatinn. Ég var að velta því fyrir mér hvort það er eitthvað óhollt að setja hann í bað á hverju kvöldi? Ég er ekki að nota neina sápu á hann og hann hefur ekki verið með neitt þurra húð. Ég hef svo núna verið að heyra frá öðrum að þetta sé ekki gott og að ég eigi alls ekki að baða hann svona oft. Mér finnst bara eins og honum líði svo rosalega vel eftir að fá að busla smá í baðinu fyrir svefninn.

Bestu Kveðjur, Ásdís.Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að baða litla drenginn þinn á hverju kvöldi. Það er þá mikilvægt, eins og þú virðist vera að gera, að fylgjast með að húð hans verði ekki þurr. Ef þér finnst hann vera að verða eitthvað þurr á húðina þá getur þú sett smá olíu (ólífuolíu sem matreitt er úr) í baðið eða að bera hana á hann eftir baðið.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. desember 2007.