Spurt og svarað

04. maí 2006

Hvenær læra börnin ?inn á? foreldra?

Sæl!

Takk fyrir góðan vef.

Er hægt að segja til um hvenær börn læra inn á foreldra, þar að segja hvað þau eru ung. Ég er með einn sem er 7 vikna og hann er stundum svolítið að stríða mér með það að fara sofa á næturnar, ég prófaði að leggja hann bara niður í rúmið sitt og þá fannst mér bara koma svona frekju grátur en ekki svona alvöru ef svo má að orði komast.

Með kveðju, Berglind.

 


 

Komdu sæl, Berglind og til hamingju með drenginn þinn!  Ég er ekki viss um nákvæmlega við hvað þú átt með fyrirspurninni varðandi, hvenær börn læra inn á foreldra sína.

Rannsóknir sýna fram á að tilfinningatengslamyndun foreldra/foreldris við barn og barns við foreldra/foreldri er tvístefnu ferli, sem hefst oftast strax við fæðingu barnsins. Skynjun barna er mjög næm allt frá fæðingu og þau láta fljótt í ljós líðan sína með hegðun t.d. gráti og hreyfingum ef þeim líður illa og sofa eða eru vær, þegar þeim líður vel. Þau finna líka fljótt muninn á því, hvort þau eru í fangi eða í snertingu við (finna hlýju, þekkja lykt, heyra hjartslátt og öndun og þekkja rödd) umönnunaraðila sinn eða eru ein í rúmi sínu.

Samkvæmt kenningum Erikson eru börn á fyrsta árinu að þróa með sér traust og/eða vantraust þ.e. læra að treysta öðrum þ.e. umönnunaraðilunum. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við þeim, þegar þau kalla eða gráta og sinna þeim til að komast að, hvað það er, sem þau þarfnast eða vilja. Á þann hátt lærir barnið traust og veit, að því verður sinnt af kostgæfni ef og/eða það kallar/grætur. Staðreyndin er sú, að foreldrar eru mjög næmir á þarfir barna sinna og  hlutverk þeirra er síðan að lesa í grátinn eða þau merki, sem barnið gefur og meta þau. Með tímanum læra foreldrar og börn að þekkja hvert annað og oftast tekst foreldrum að komast að réttri niðurstöðu varðandi tjáningu barnsins og vita, hvað þau eru að tjá sig um með atferli sínu.

Mér sýnist sonur þinn vera að tjá sig við þig varðandi það, hvar honum líður vel og hvar hann vill vera.  Það er svo aftur annað mál, sem kallast uppeldi og jákvæður agi, hvort foreldrar eigi alltaf að láta undan óskum barna sinna. Þá er mikilvægt að hafa í huga, hvað barninu er fyrir bestu og hugsa um andlega og líkamlega velferð þess. Um þau málefni hafa verið skrifaðar margar uppeldisbækur og hvet ég þig til að glugga í einhverjar þeirra. En eflaust gefum við aldrei börnum okkar of mikla ást eða umhyggju.

Gangi ykkur vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.