Spurt og svarað

14. nóvember 2011

Hvenær mega börn standa í fæturnar og sitja

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég á tæplega þriggja mánaða gamla stelpu, hún er stór og er sterk og fjörug. Þegar maður heldur á henni vill hún bara sitja upprétt (finnst mjög leiðinlegt þegar maður hallar henni aftur og heldur á henni eins og ungbarni). Hún hélt höfði mjög snemma og byrjaði að velta sér 8 vikna gömul. Hún vill bara annað hvort liggja á leikteppinu sínu eða sitja í 90°.  Þegar maður situr með hana spyrnir hún fótunum mikið og eiginlega stendur upp. Maður heyrir hins vega líka talað um að þau megi ekki spyrna of mikið í því þá geti beinin bognað og að það sé óholt fyrir bakið á þeim að sitja svona mikið. Ef ég leyfi henni það þá getur hún staðið með stuðningi í nokkrar sekúndur. Spurningar mínar eru þvi þessar. Hvenær má setja álag á fæturnar á svona litlum krökkum? Hvað þolir bakið á þeim mikla setu og hversu snemma má maður leyfa þeim að sitja og standa? Þolir þessi litli líkami allt þetta álag? Er eitthvað sem maður getur miðað við?

Kveðja, Ný mamma.


Komdu sæl.

Eins og þú segir sjálf þá er hún sterk og dugleg.  Hún má sitja eins og hún vill og standa í fæturnar eins lengi og hún vill og getur.  Venjulega eru þetta ekki margar mínútur en þó getur hún setið töluvert lengi í þar til gerðum stól.  Ef hún er að fá sitt D-vítamín þá getur hún ekki aflagað beinin sín með því að reyna á sig.  Það er börnum eðlilegt að gera alltaf það sem þau lærðu síðast og svo alltaf aðeins meira og meira af því.  Ef hún fær að ráða er þetta allt í lagi, þegar hún verður þreytt þá hættir hún þessu og gefur til kynna að hún vill breyta til.

Kveðja,

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
14. nóvember 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.