Hversu lengi eru brjóstin að jafna sig?

28.02.2008

Mig langar að byrja á því að þakka góðan vef, hef oft leitað hingað og fengið góð svör við spurningum mínum. Mig langar að spyrja ykkur að því hversu langur tími þarf að líða frá fæðingu barns þar til að brjóstin eru búin að jafna sig og komin í sitt fyrra horf. Ég tek það fram að ég ætla ekki að vera með barnið á brjósti og stefni á að fara í brjóstaminnkun. Enn og aftur þökk fyrir góðan vef.

 


 

Sæl og blessuð.

Það er kannski ekki hægt að orða það svo að þau fari í sitt fyrra horf. Það hafa orðið á þeim breytingar á meðgöngunni sem eru margar hverjar óafturkræfar. Það er jú síðasta stig brjóstaþroskans sem fer fram á meðgöngunni. Eftir fæðinguna gerist ósköp lítið. Ef barn er ekki lagt á brjóst fer nánast engin mjólkurframleiðsla af stað. Þessi bakkgír sem líkaminn er settur í veldur smá þrota í brjóstvefnum. Eftir fáeina daga jafnar það sig og eftir það verður engin breyting.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. febrúar 2008.