Hversu oft á að baða ungbörn

06.12.2005

Hæ, hæ!

Var að velta því fyrir mér hversu oft er ráðlegt að baða ungbörn á viku. Er með gullmola sem er 3 ½ mánaða og honum finnst ekkert ofsalega gaman í baði. Er kannski sniðugt að fara jafnvel með honum í baðið?

Með fyrirfram þökk og takk fyrir góða síðu.

..........................................................................................................

 

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Það eru ekki til neinar reglur um, hversu oft ráðlegt er að baða ungbörn, heldur er skynsemin látin ráða. Það er í lagi að setja þau í bað daglega en er kannski óþarfi og láta því margir annan hvern dag eða sjaldnar nægja. Hins vegar er talað um, að óþarfi sé að nota sápu á litlu krílin fyrsta árið. Það er góð hugmynd að fara með drengnum í baðið ef hann er ekki orðinn sáttur við vatnið. Yfirleitt eru börn mjög hrifin af því fara í bað og finnst það notalegt, þegar þau hafa vanist vatninu. Það verkar oft róandi og slakandi á þau þannig, að þau sofna vært á eftir. En það þarf alltaf að ganga úr skugga um að hitinn á baðvatninu sé hæfilegur (um 37° C) áður en barnið er sett ofan í það.

Gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. desember 2005.