Járnþörf ungbarna

09.03.2007

Sælar kæru ljósmæður,

Ég hef verið þónokkuð lengi að velta einu fyrir mér sem stangast alveg á við þær "reglur" sem settar hafa verið fram um mataræði ungbarna. Nú varð ég ekki svo heppin með brjóstagjöfina og reyndi margt á fyrstu tvem mánuðum til að koma mjólkurflæðinu í gang. Það endaði með því að við ljósmóðirinn tókum þá ákvörðun að setja barnið alfarið yfir á þurrmjólk
þegar hún var farin að léttast mikið.
Á þurrmjólkurdósinni frá SMA stendur skýrt og greinilega að frá 3-4 mánaða aldri þarf að fullnægja járnþörf barnsins öðruvísi en með þurrmjólkinni. Hvað á þá að gefa ef barnið á ekki að fá að borða fyrr en um 6 mánaða?

Með von um góð svör.Komdu sæl.

Þetta er virkilega þörf ábending um að SMA fullnægi ekki járnþörf barna eftir 4 mánaða aldur.  Vissulega er SMA ekki eins fullkomin næring eins og brjóstamjólkin.  Börn nýta járnið í þurrmjólkinni ekki eins vel eins og úr brjóstamjólk, meðal annars þess vegna er mælt með brjóstamjólk eingöngu til 6 mánaða og þar af leiðandi er ekki mælt með að börn fari að borða fyrr en við 6 mánaða aldur.  Þar sem það er ekki inn í myndinni hjá ykkur þá er ekkert sem mælir á móti því að við 4 mánaða aldur fari barnið að fá grauta með sem eru líka járnbættir og ætti það þá að fullnægja járnþörfinni þar til þú ferð svo að bæta við fleiri fæðutegundum.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
09.03.2007.