Spurt og svarað

10. apríl 2008

Kostir útisvefns í vagni

Sælar!

Mig langar að vita hvort gerðar hafa verið athuganir á því hver kosturinn er við að láta börnin sofa úti í vagni, eða hvort þið vitið hvað barnið er að fá út úr því að sofa úti í vagninum miðað við að sofa inni. Er bara að spá í þetta því þessi útisvefn tíðkast líka hér í Danmörku en ekki í öllum evrópulöndum. Ég er mjög hlynnt útisvefni þar sem dóttir mín virðist sofa mjög vel úti í vagninum sínum. Sefur þá lengri dúr en þegar hún sefur inni á daginn. Hún er mánaðargömul.

Kveðja og takk fyrir góðan vef, Danmerkurmamma.


Komdu sæl, Danmerkurmamma
 
Veit ekki til þess að gerðar hafi verið athuganir eða rannsóknir á kostum útisvefns í vagni. Reynslan hefur hins vegar kennt okkur að börn sofa oft vært og lengur í einu úti í vagni en inni í húsi og hefur með tímanum skapast hefð varðandi útisvefn ungbarna. En af hverju sofa börnin svona vel úti? Í fyrsta lagi skapast sú venja og börnin verða vön því að sofa úti, en regla á athöfnum daglegs lífs á vel við börn og veitir þeim öryggi. Síðan eru þau hæfilega klædd og umvafin eða búið þannig um þau að þeim líður vel í vagninum. Ruggið í vagninum getur líka virkað róandi á börnin, hvort sem það er vegna þess að vagninn er keyrður eða vindurinn/golan bærir hann hæfilega.  Ástæður fyrir því, hvers vegna byrjað var á að láta börn sofa úti í vagni má geta sér til, að hafi komið til vegna lélegra húsakynna hér áður fyrr og barnmergðar og þrengsla á hverju heimili. Einnig voru berklar landlægir hér áður fyrr og þá var „hreina útiloftið“ talið hafa góð áhrif.

Það er hins vegar ekki mælt með því að börn sofi úti þegar frost er og vindur því það fer svo mikil orka í það fyrir börnin að hita kalda loftið, sem þau anda að sér og þau geta ofkólnað. Svo þarf líka að varast að láta þau sofa úti í mikilli sól og hita og láta vagninn standa í skugga fremur en í sól svo ekki verði of heitt inni í vagninum. Almennt er talið, að það geri barni jafngott að sofa hæfilega klætt við hæfilegt hitastig inni í herbergi í fersku lofti þ.e. við opinn glugga, en ekki þannig að það gusti á nokkurn hátt á barnið. Þegar við veltum fyrir okkur útisvefni skoðum við líka umhverfi okkar þ.e. hvort staðsetning vagnsins sé við mikla umferðargötu eða í einhverri fjarlægð frá mengunarlofti bílaumferðar. 
 
Vonandi svarar þetta að einhverju leyti spurningu þinni en áhugavert væri að heyra hvað danskir hjúkrunarfræðingar segja um þetta efni. Þér ætti að vera óhætt að spyrja þær um þetta, næst þegar þú ferð með barnið í ungbarnavernd.

Bestu kveðjur,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
10. apríl 2008.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.