Kúamjólk beint úr kúnni

29.10.2006

Sælar!

Takk enn og aftur fyrir frábæran vef.

Hvernig er það með óunna kúamjólk, það er að segja beint úr kúnni, má gefa börnum þessháttar mjólk? Nú er til stoðmjólk sem fer misvel í börn hef ég heyrt og það sé vegna þess að hún er svo mikið unnin. Ég bý í sveit og fæ mjólk hér af næsta kúabúi og ég hef verið að spekúlera hvort að ég mætti gefa syni mínum þessháttar mjólk í staðinn fyrir stoðmjólk þegar þar að kemur. Hann er reyndar á brjósti og verður það áfram (er ekki nema þriggja mánaða). Svo er það annað, ég hef gefið honum ábót í pela sl. 6 vikur en það kom til vegna vandræða við brjóstagjöf. Brjóstagjöfin gengur mjög vel núna, fékk hjálp frá þér Katrín sem og ljósmóðurinni í minni heimabyggð eftir að ég flutti í sveitina. Hann hefur fengið þennan pela á kvöldin áður en hann fer að sofa (kom aðallega til vegna þess að ég var svo aum í geirvörtunum á kvöldin að ég gat engan vegin lagt hann á). Alla vega, svo að ég komi mér nú að spurningunni, mig langar svo að hætta með pelann á kvöldin og gefa honum á brjóst en málið er að hann vill ekki taka brjóstið hjá mér fyrir svefninn. Væntanlega orðinn svo vanur því að fá pelann og vill hann áfram. Ég hef passað mig á að nota túttu nr. 1 svo að hann þurfi samt sem áður að hafa svolítið fyrir þessu. Hvernig get ég snúið þessu við? Hann tekur brjóstið ef hann fær pelann áður en þá eingöngu í smástund. Ég er með nóga mjólk því að ég er alveg að springa þegar hann loksins vaknar á nóttunni til að drekka.

Takk fyrir, Eva.


Sæl og blessuð Eva.

Já, þegar barnið er orðið 6 mánaða má það fá óunna kúamjólk í stað stoðmjólkur. Hún fer þó líka misvel í börn. En fyrst þú ert í sveit, ef þú hefur aðgang að merarmjólk (kaplamjólk) þá er hún auðvitað enn betri. Aðalmálið með kúamjólkina er alltaf járninnihald. Börn nýta járn úr kúamjólk mjög illa þannig að ef þau fá mikla kúamjólk þá verður að gefa þeim járn til viðbótar. Varðandi hitt vandamálið þá sýnist mér þú vera komin hálfa leið. Þú færð barnið til að taka brjóstið á kvöldin ef þú gefur pelann fyrst. Þá er bara að fara að gefa pelann styttra og styttra áður en brjóstið er boðið. Vertu bara á klukkunni og þá ætti þetta að takast á nokkrum dögum. Vona að þetta gangi.    

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. október 2006.