Kúamjólk eða þurrmjólk

22.08.2005
Sælar og þakka ykkur fyrir frábæra síðu.
Nú er minn orðinn 8 mánaða og farin að borða í allar máltíðir. Hann fær alltaf brjóstið sem sinn svaladrykk á eftir. Núna hef ég tekið þá ákvörðun að gefa honum aðeins morgungjöf og áður en hann fer að sofa, er heldur ekkert á móti einni næturgjöf í svolítinn tíma í viðbót. En þessum tveimur gjöfum ætla ég að halda eins lengi og ég get.  Þá er spurningin: þarf ég að gefa honum þurrmjólk? Ég myndi helst vilja sleppa við það, hann hefur aldrei bragðað hana og ég var að spá í hvort ekki væri kominn tími á bara kúamjólkina? og ef það má, hversu mikið má ég þá gefa honum á dag? með fyrirfram þökk.
 
............................................................
 
Komdu sæl.
 
Það er enginn ástæða að gefa honum þurrmjólk þar sem hann er orðinn þetta gamall.  Mælt er með stoðmjólk fyrir 6 mán. til 2 ára gömul börn þar sem í hana er blandað járni og öðrum vítamínum og steinefnum sem börnin þurfa en hún er líka próteinminni en venjuleg nýmjólk og hentar því börnum á þessum aldri betur.  Dagsskammtur mjólkur er u.þ.b. 500 ml (1/2 lítri) á dag en þá er líka tekið með það sem er blandað út í grauta og annað slíkt, svo fær hann auðvitað brjóstamjólkina þannig að það dregst frá þessum skammti.
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
22.08.2005.