Kúgast á pelanum, langar að prófa fingurgjöf

14.10.2005

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran vef!

Ég á 12 vikna stelpu sem er eingöngu á brjósti en fékk pela tvisvar sinnum þegar hún var u.þ.b. 8 vikna þegar við skruppum í burtu frá henni og gekk það rosalega vel.  Nú hefur hún hins vegar neitað að taka pelann (höfum reynt þrisvar) og kúgast hún bara þegar hún fær túttuna upp í sig eða er ófáanleg til þess og verður bara öskureið og grætur út í eitt. Eru einhver ráð sem hægt er að gefa mér til þess að gefa henni þegar ég skrepp frá? Ég hef prófað Nuk pela og Pussycat. Ég las að það sé hægt að gefa fingurgjöf. Gætuð þið gefið mér leiðbeiningar um hana og hvar sé hægt að nálgast slöngu til að framkvæma þetta. Mér finnst eiginlega ekki annað hægt en að ég geti skroppið aðeins frá öðru hverju og eins líka fyrir pabba hennar að geta hugsað um hana eina kvöldstund og gefið henni að borða.  Ég væri því þakklát ef þið hefðuð einhverjar aðrar uppástungur fyrir okkur að reyna. Með þökk fyrir.

........................................................................

Sæl og blessuð!

Ég myndi í þínum sporum kannski ekki gefa pelann alveg upp á bátinn strax heldur reyna fleiri túttugerðir. Það eru til orðið svo margar sniðugar túttur. Þú athugar að það þýðir ekkert fyrir þig sjálfa að vera að prófa þetta. Brjóstabörn eru ekki tilbúin að taka pela (eða neitt annað) ef þau finna lyktina af móður sinni. Það verður einhver annar aðili að gefa pelann og móðirin getur ekki verið í sama herbergi. En það eru til ýmsar aðrar leiðir til að gefa börnum sem eru fjarri móður sinni. Þú nefnir fingurgjöf sem kemur til greina. Til þess að nota hana þarftu slönguna sem þú talar um og heitir sonda. Hún fæst í apótekum (ekki öllum) og kostar lítið. Þú límir hana með plástri á fingurinn á þér svo oddurinn nemi við fingurgóminn. Hinum endanum stingurðu niður í mjólkina. Svo seturðu fingurinn upp á barnið með fingurgóminn upp og rennir honum það langt að kvikni á sogviðbragðinu. Hér á vefnum eru leiðbeiningar um fingurgjöf með myndum. Þú getur líka látið gefa barninu með litlu staupi, teskeið, dropateljara eða sprautu.

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. október 2005.