Spurt og svarað

27. desember 2005

Kýs frekar pelann

Dóttir mín er tæplega 4 mánaða og drekkur ekki nóg úr brjóstunum. Forsagan er sú að ég fór að vinna hlutavinnu þegar dóttir mín var tveggja vikna og fékk hún þá brjóstamjólk úr pela. Það hefur aldrei verið neitt vandamál. Ég er með mjög hratt losunarviðbragð og u.þ.b. 3 mánaða fór hún í örfá brjóstaverkföll. Ég gaf henni þá bara úr pelanum og síðan var þetta gleymt og grafið í næstu gjöf. Undanfarið hefur hún verið frekar óvær og vaknað á 2 tíma fresti á nóttunni og sofið mjög stutta dúra á daginn. Mér datt allt í einu í hug hvort að hún væri ekki að fá nóg. Hún hafði verið u.þ.b. 7 mín að drekka og ég u.þ.b. 7 mín líka að pumpa 80-100 ml. Nú er hún tæp 7 kg og þarf meira en 80-100 ml í gjöf, en er stundum bara 5 mínútur að drekka. Ef hún grætur eða er óvær eftir gjöf hef ég prófað að bjóða henni hitt brjóstið en hún vill ekki sjá það. Eins og hún nenni ekki að díla við brjóstið. Þá mjólkaði ég og hún þáði ábót úr pela. Hún varð aftur vær og fór að sofa 6 tíma á nóttu. Nú þarf ég að gefa henni úr pelanum u.þ.b. einu sinni á dag og einu sinni á kvöldi (fyrir svefninn) og er að spá í hvort að ég sé að búa til einhvern vítahring fyrir mig og að hún muni hafna brjóstunum alveg þar sem pelinn er auðveldari. Helst vildi ég að hún tæki nægju sína úr brjóstunum. Ég hef prófað að gefa liggjandi og líka að klípa um brjóstið en það virkar eins og að kreista brúsa. Hún hafnar helst brjóstunum ef hún er pirruð eða þreytt en tekur þeim alveg þegar hún er nývöknuð.

..........................................................................................................

Já, mér sýnist á öllu að þú sért að búa þér til sjálfskapaðan vítahring. Barn sem er fullfært um að sjúga úr brjósti þarf ekki ábót úr pela. Útreikningar þínir á millilítrum og mínútum eru rökréttir en mjög langt frá raunveruleikanum. Barn er mjög misfljótt að drekka. Það getur gleypt í sig 90 ml. á 3 mínútum en dólað sér svo í 25 mín. í næstu gjöf og fengið 60 ml. Þetta er svipað hjá fullorðnum. Stundum gleypir maður í sig á methraða en stundum vill maður dóla og njóta matarins. Þú segir á einum stað að barnið þurfi meira en 80-100 ml. í gjöf. Mig grunar að þú sért að rugla saman við þurrmjólkurgjafir þar sem magn í skammti er ákveðið og smáaukið eftir þyngd barna. Þetta á ekki við um brjóstabörn. Þau taka oft svipað magn á sólarhring á meðan styrkur mjólkurinnar eykst með vaxandi aldri barnsins. Þau taka oft mjög breytilegt magn milli gjafa af því mjólkin er mismunandi eftir því hvenær sólarhringsins er o.s.frv. Svo er líka mikilvægt fyrir þig að hafa í huga að það sem þú getur mjaltað úr brjóstum þínum er ekki mælikvarði á hvað þú getur framleitt af mjólk. Það er mikilvægt fyrir þig að leyfa barninu að stjórna hve lengi og hve oft það sýgur. Treystu barninu til að segja til um hvað það þarf að drekka. Hættu að mjólka þig. Brjóstin munu aðlaga framleiðslu sína að þörfum barnsins á eðlilegri hátt. Það getur vel tekið nokkra daga fyrir svona breytingar að ganga yfir þannig að þú getur þurft að taka svolítið á þolinmæðinni. En þú verður mun ánægðari þegar þetta er gegnið yfir þar sem þú er búin að vera að skapa þér óþarfa vinnu og erfiðið hingað til.

Með von um að vel gangi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.