Langar að verða ljósmóðir

08.08.2004

Hæ,hæ!

Ég er 16 ára stelpa sem hef rosalegan áhuga að verða ljósmóðir þegar ég verð stærri en ég bara veit ekki hvar ég á að læra það? Ég meina verð ég að verða stúdent í einhverju ákveðnu áður en ég fer í háskólann? Viljið þið „plís“ hjálpa mér?

Kveðja Bergþóra.

..............................................................

Sæl Bergþóra og takk fyrir að leita til okkar!

Eins og fyrirkomulag námsins er í dag þá þarftu að klára nám í hjúkrunarfræði áður en þú getur hafið ljósmæðranámið.  Nám í hjúkrunarfræði tekur 4 ár og nám í ljósmóðurfræði tekur 2 ár.

Samkvæmt upplýsingum á vef hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands skulu nemendur sem hefja nám í hjúkrunarfræði hafa lokið stúdentsprófi af bóknámsbraut eða sjúkraliðabraut.  Þar segir ennfremur: „Allir nemendur skulu hafa lokið áfanganum Efnafræði 103. Stúdentar af sjúkraliðabraut skulu auk þess hafa lokið a.m.k. 15 einingum í íslensku, 6 einingum í stærðfræði og 9 einingum í ensku“. 

Einnig er hægt að læra hjúkrun við Háskólann á Akureyri og ég geri ráð fyrir að inntökuskilyrðin þar séu svipuð.

Ég vona að þú látir verða af þessu og óska þér bara alls hins besta.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 8. ágúst 2004.