Langar í ljósmæðranám en er að pæla í laununum

20.01.2005

Mig langar mikið að fara í ljósmæðranám en er mikið að pæla í laununum. Mig langar að spyrja hvort þið gætuð sagt mér í grófum dráttum hver launin eru?

......................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Því miður eru laun ljósmæðra ekki í samræmi við lengd náms og ábyrgð í starfi. Á heimasíðu Ljósmæðrafélagsins er að finna upplýsingar um kjör ljósmæðra en grunnlaun nýútskrifaðrar ljósmóður eftir 6 ára háskólanám eru um 200.000 kr. en er auðvitað eitthvað misjafnt eftir stofnunum. Þær sem vinna í vaktavinnu fá svo greitt vaktaálag ofan á launin en það er umbun fyrir að vinna óreglulegan vinnutíma og á tímum sem aðrir eiga frí. Greitt er 33,3% vaktaálag á kvöldin, 55% á nóttunni og um helgar og 90% á stórhátíðum s.s. á jólum og páskum.

Eins og staðan er í dag eru það ekki launin sem draga mann í þetta nám heldur áhuginn á starfinu og hugsjónin. Það er ekki hægt annað en að mæla með því að leggja í þetta nám ef áhuginn er fyrir hendi því starfið er mjög skemmtilegt en auðvitað krefjandi. Við sem störfum við þetta höldum auðvitað í vonina um að nám og ábyrgð verði metin að verðleikum einhvern daginn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2005.